Færst hefur í aukana að netið sé notað til að finna burðardýr til að flytja fíkniefni til landsins. Þetta kann að skýra mjög hátt hlutfall burðardýra sem er með erlent ríkisfang en einnig gæti verið um að ræða birtingarmynd aukinna umsvifa erlendra brotahópa á landinu.
mbl.is hefur undanfarið fjallað um mikla aukningu í haldlagningu fíkniefna á Keflavíkurflugvelli. Í því samhengi hefur kókaín verið áberandi en í lok maí hafði lögreglan á Suðurnesjum þegar lagt hald á meira magn af efninu en hún gerði allt árið 2024.
Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Stefán Sveinsson, tengiliður Íslands hjá Europol, að gera megi ráð fyrir að þetta sé til marks um að meira magn af efninu sé að rata til landsins.
„Miðað við það magn sem hefur verið haldlagt það sem af er ári má gera ráð fyrir auknum innflutningi þótt erfitt sé að fullyrða um það. Góð vinna tollgæslu og lögreglu er einnig að skila sér í auknum haldlagningum,” segir Stefán.
Hann bætir við að mest magn fíkniefna sé haldlagt á Keflavíkurflugvelli en að efnin komi með ýmsum leiðum inn í landið. Þar má nefna Norrænu, flutningaskip og póstsendingar.
Í umfjöllun mbl.is í upphafi mánaðar var haft eftir lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á Suðurnesjum að þó svo að gífurleg aukning hefði verið í málum er varða innflutning á kókaíni í gegnum flugvöllinn væru málin í grunninn mjög svipuð og verið hefur.
Burðadýr sem flytja efnin innvortis eru alla jafna með um það bil hálft til eitt kíló í fórum sínum en þegar efnin uppgötvast í ferðatöskum er yfirleitt um að ræða þrjú til fjögur kíló í hverri tösku.
Þá sagði lögreglufulltrúinn að langstærstur hluti burðardýra sem kæmi hingað til lands væru erlendir ríkisborgarar og að aðeins um eitt til tvö mál þar sem Íslendingar eru burðadýr kæmu upp á ári.
Spurður hvort eðli innflutnings á kókaíni hafi breyst að einhverju leyti síðustu ár bendir Stefán á aukið framboð og hreinni efni.
„Framboð kókaíns hefur aukist mikið á síðustu árum en samkvæmt UNODC World Drug Report 2024 jókst ræktun coca-plöntunnar um 143 prósent frá 2010 til 2022. Þetta aukna framboð hefur leitt til meira og greiðara aðgengis brotahópa að hreinna kókaíni, þar á meðal þeirra hópa sem smygla til Íslands,” segir Stefán og bætir við:
„Í dag er meira af hreinu kókaíni að koma til landsins en áður og kemur efnið oftar en ekki í 1 kg pakkningum sem hefur verið pakkað í S-Ameríku.”
Þá segir Stefán aðspurður að hátt hlutfall erlendra burðardýra kunni að vera birtingarmynd aukinna umsvifa erlendra glæpahópa hérlendis en að fleiri þættir spili inn í.
„Umsvif erlendra brotahópa á Íslandi hafa aukist undanfarin ár og kann að vera að þetta sé ein birtingarmynd þess. Þá er að færast í aukana að netið sé notað til þess að finna burðardýr sem hafa enga tengingu við landið eða þá hópa sem fá þau til verksins,” segir Stefán.