Grenndarstöðvar vaktaðar með öryggismyndavélum

Gunnar Dofri Ólafsson, sviðsstjóri þjónustu- og samskiptasviðs Sorpu, og Sigurður …
Gunnar Dofri Ólafsson, sviðsstjóri þjónustu- og samskiptasviðs Sorpu, og Sigurður Gíslason, viðskiptastjóri hjá Öryggismiðstöðinni, við eina af grenndarstöðvum Sorpu, þar sem myndavélavöktun hefur verið aukin. Ljósmynd/Bent Marinósson

Til að sporna við sóðaskap og auðvelda starfsfólki Sorpu að tryggja góða umgengni á grenndarstöðvum hefur Sorpa hafist handa við að koma upp öryggismyndavélum á grenndarstöðvum sínum í Reykjavík og Kópavogi.

Stefnt er að því að myndavélar verði komnar upp á öllum grenndarstöðvum í sveitarfélögunum tveimur í lok þessa árs. Öryggismiðstöðin sér um uppsetningu á öryggismyndavélum sem og vöktun á grenndarstöðvunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sorpu.

Í sveitarfélögunum tveimur eru samtals um 65 grenndarstöðvar, þar sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu geta losað sig við málmumbúðir, glerumbúðir, föt og klæði, og skilagjaldsskyldar umbúðir. Á völdum grenndarstöðvum er einnig í boði að losa pappír og plast.

Í tilkynningunni segir að umgengni um grenndarstöðvar sé ekki alltaf til fyrirmyndar og þekkt vandamál sé að ýmis konar rusl sé skilið eftir við stöðvarnar í leyfisleysi.

Hafa fælingarmátt

Haft er eftir Gunnari Dofra Ólafssyni, sviðsstjóra þjónustu- og samskiptasviðs Sorpu, að þrifateymi Sorpu og myndavélarnar frá Öryggismiðstöðinni hafi þegar sannað gagn sitt. Ábendingum um sóðaskap hafi fækkað snarlega eftir að Sorpa tók við verkefninu og með uppsetningu myndavélanna standi vonir til að áfram verði hægt að tryggja þennan árangur með lægri tilkostnaði.

„Myndavélarnar hafa greinilegan fælingarmátt. Fólk skilur rusl síður eftir á grenndarstöðvum sem eru vaktaðar en það gerði áður en við settum myndavélarnar upp.

Myndavélarnar auðvelda okkar fólki líka vinnuna, því fram til þessa þurftum við að kanna hvort rusl hefði verið skilið eftir í óleyfi á grenndarstöðvum með því að mæta á staðinn.

Núna getum við betur greint vandann og tekist á við hann með skilvirkari hætti,“ er haft eftir Gunnari Dofra.

Hægt að bregðast við í rauntíma

Haft er eftir Auði Lilju Davíðsdóttur, framkvæmdastjóra Öryggislausna hjá Öryggismiðstöðinni, að myndeftirlitskerfi veiti öfluga yfirsýn um ástand grenndarstöðva Sorpu og hafi mikinn fælingarmátt.

Kerfin auki þá öryggi starfsmanna og gesta við grenndarstöðvar Sorpu.

„Með myndvöktun Öryggismiðstöðvarinnar er hægt að bregðast við í rauntíma. Myndavélakerfi er beintengt stjórnstöð okkar og getur gert viðvart um óæskilega umferð hvort sem er á nóttu eða degi,“ er haft eftir Auði Lilju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert