Nýjungar í gufunni og sundlaugarpartý í ágúst

Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar, segir gesti geta átt von …
Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar, segir gesti geta átt von á nýjungum í ágúst. Samsett mynd/mbl.is/Eggert Jóhannesson/Árni Sæberg

Nýjar rennibrautir og innrauður sánuklefi eru meðal þeirra nýjunga sem unnið er að í Vesturbæjarlaug og stendur til að opni í ágúst.

Nýtt sánufyrirkomulag hefur orðið kveikja að hugmyndasamkeppni um það hvernig sánuklefunum muni vera skipt.

Þetta sagði Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar, þegar blaðamaður ræddi við hana í Vesturbæjarlaug fyrr í dag.

Tvær rennibrautir leysi þá gömlu af hólmi

„Það eiga að koma tvær nýjar rennibrautir, en þær verða líklegast ekki komnar til landsins fyrr en í lok ágúst vegna tafa hjá framleiðanda,“ segir Anna.

Rauða rennibrautin sem sett hefur sterkan svip á sundlaugarbakkann í yfir 30 ár muni standa vaktina þangað til.

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í Vesturbæjarlaug síðan í apríl.
Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í Vesturbæjarlaug síðan í apríl. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innrauður sánuklefi bætist við

Miklar breytingar hafa verið gerðar á sánurými laugarinnar, en til stendur að innrauður sánuklefi með framhlið úr gleri verði tilbúinn í ágúst að sögn Önnu.

Hann sé með þeim stærri á landinu, en óvíst sé hvort hann slái innrauða klefanum í Lágafellslaug við þegar kemur að stærð.

Innrauði sánuklefinn er farinn að taka á sig mynd.
Innrauði sánuklefinn er farinn að taka á sig mynd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hugmyndasöfnun vegna nýs sánufyrirkomulags

„Fólk var missátt þegar gömlu sánuklefarnir voru rifnir,“ segir Anna, en unnið sé að nýju fyrirkomulagi þeirra vegna.

„Eins og er stendur yfir hugmyndasöfnun um það hvernig fyrirkomulagið verði í þessum nýju klefum - það gæti verið ein þögul sána og ein ekki, ein ilmsána og ein venjuleg, eða eitthvað allt annað.“

Hugmyndasöfnunin fer nú fram á vef Reykjavíkurborgar.

Handklæðaskylda verði tekin upp í sánunum, og því eins gott að muna eftir handklæði. „Ef maður gleymir því verður maður bara að sætta sig við eimbaðið,“ segir Anna.

Hún segir að fyrirkomulagið um sérsánu fyrir karla og konur gæti haldist óbreytt, en það velti á kosningum milli vinsælustu hugmyndanna úr hugmyndasöfnuninni sem efnt verði til seinna í sumar.

Innrauðri sánu verður bætt við þær sánur sem fyrir eru.
Innrauðri sánu verður bætt við þær sánur sem fyrir eru. Tölvuteikning/Reykjavíkurborg

Stemningslýsing og sundlaugarpartý

„Svo stendur til að setja upp stemningslýsingu í grindverkið til þess að laugin verði notalegri,“ segir Anna, en hugmyndin hafi komið upp í hverfiskosningu fyrir nokkru síðan.

„Síðan ætlum við að halda partý, eða teiti, seinnipart ágúst þegar rennibrautirnar verða mættar í hús og sánurnar tilbúnar.“

Nýrri lýsingu er ætlað að gera Vesturbæjarlaug notalegri.
Nýrri lýsingu er ætlað að gera Vesturbæjarlaug notalegri. Ljósmynd/Unsplash
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert