Sigurður Fannar Þórsson, sem banaði tíu ára dóttur sinni að Hraunhólum við Krýsuvík fékk 16 ára dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fram kemur í dómnum að hann hafi slegið dóttur sína ítrekað í hnakka með hamri, alls 9-10 högg samkvæmt greiningu réttarmeinafræðings.
Í dómnum segir frá andlátsdegi stúlkunnar, 15. september 2024. Sigurður og dóttirin óku þá saman að vinnustað hans í Hafnarfirði og úr gámi sótti hann klaufhamar. Segir að hann hafi ætlað að nota hann til að brjóta berglög í Krýsuvíkurhrauni og sýna dóttur sinni.
Segir í dómi að Sigurður hafi ekið um miðbæ Hafnarfjarðar áður en þau fóru á Krýsuvíkurveg. Farsímagögn gefa til kynna að að hann hafi ekið bíl sínum framhjá Vatnsskarðsnámum og lagt bíl sínum þar skammt frá rétt eftir klukkan 14 þennan dag.
Af farsímagögnum dótturinnar að dæma dvaldi hún þar í 32 mínútur. Lögregla greindi síðast hreyfingu á síma hennar laust eftir klukkan 15. Eftir klukkan 18 hringdi Sigurður svo í Neyðarlínuna og óskaði eftir aðstoð lögreglu við námurnar.
„Í upptöku af samtali ákærða við lögreglu segist hann hafa gert eitthvað „mjög slæmt“, hann hafi meitt einhvern og sá væri dáinn „inni í hrauni“. Hann kvaðst hafa barið viðkomandi með vopni, tilgreindi A dóttur sína í því sambandi og sagði að A, hér eftir brotaþoli, lægi dáin í gjótu í miðju hrauni,“ segir í dómnum.
Þegar lögregla kom á staðinn gaf Sigurður sig fram við lögreglu sem handtók hann án mótspyrnu. Hann greindi frá því að dóttir hans lægi í gjótu í um 5-10 mínútna göngufjarðlægð.
„Fylgt var leiðbeiningum Sigurðar og fannst brotaþoli nokkrum mínútum síðar vestan við Hraunhól þar sem hún lá á bakinu, lífvana, köld og með mikla áverka á hnakka. Við hlið líksins var blóðugur klaufhamar. Örskammt frá lá handrituð orðsending ákærða þar sem hann biður sína nánustu fyrirgefningar,“ segir í dómnum. Þá kemur fram að hann var með áverka á framhandlegg eftir dúkahníf og hafi reynt að fremja sjálfsvíg.
Sjálfur ber Sigurður við minnisleysi um atvikið. Þannig hafi hann farið í „roadtrip“ og gefið dóttur sinni pulsu en hafi ætlað að nota klaufhamarinn til að brjóta berglög. Þau hafi gengið um svæðið við námurnar. Eftir það muni hann næst eftir sér í brekku, búinn að skera sig, þannig ætlað að taka eigið líf og þess vegna skilið orðsendingu til sinna nánustu.
Að eigin sögn kom ekkert upp á milli hans og dóttur hans áður en hann réð henni bana. Þeim varð ekki „sundurorða" og sagði hann brotaþola hafa verið ljós sitt í lífinu.“
Raunar segir Sigurður að hann muni ekkert eftir sér fyrr en hann sat í fangelsi á Hólmsheiði 1-2 sólarhringum eftir andlátið.
Mat geðlækna var það að Sigurður hafi ekki verið í geðrofi þegar umrætt atvik átti sér stað og barnsmóðir hans segir að hann hafa verið eðlilegan í samskiptum fyrr um daginn þegar hann réð dóttur sinni bana.
Samhliða sektardómi fyrir manndráp var hann einnig dæmdur fyrir fíkniefnalagabrot en hann hafði undir höndum ýmis fíkniefni. Svo sem kókaín, marijuana, MDMA, MDMA kristalla og ýmis önnur fíkniefni sem fundust við leit í vörugámi í Hafnarfirði þann 15. september 2024. Þrátt fyrir að hafa þessi fíkniefni undir höndum mældist hvorki áfengi né vímuefni í neinum mæli í blóði hans á þessum afdrifaríka degi þar sem hann banaði dóttur sinni.
Fram kemur í dómnum að Sigurður játaði brot sín en játaði hins vegar ekki ásetning um að hafa ætlað að drepa dóttur sína.
Í dómnum segir að Sigurður hafi búið með barnsmóður sinni í um átta ár en upp úr samvistum þeirra slitnaði árið 2019-2020. Þau eignuðust saman dótturina sem lést í Krýsuvík. Svo virðist sem Sigurður hafi dvalið hjá barnsmóður sinni mánuðina fyrir andlátið en hann missti húsnæði sitt eftir að upp komst um kanabisræktun þar. Barnsmóðirin segir Sigurð hafa verið góðan föður og ekki sem gaf til kynna að hann vildi vinna dóttur sinni mein.
Barnsmóður Sigurðar voru dæmdar fimm milljónir króna í miskabætur og 1,5 milljón króna í bætur vegna útfarar.
Fréttin verður uppfærð