Skoðaði áhrif hreyfingar á kæfisvefn

Katrín Ýr við útskrift úr doktorsnámi í íþróttafræði úr Háskólanum …
Katrín Ýr við útskrift úr doktorsnámi í íþróttafræði úr Háskólanum í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Katrín Ýr Friðgeirsdóttir, doktor í íþróttafræði, rannsakaði áhrif hreyfingar á kæfisvefn fyrir doktorsverkefnið sitt. Um helgina útskrifaðist hún fyrst manna sem doktor af íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík.

„Við vorum að skoða áhrif hreyfingar á kæfisvefn, við vorum með tólf vikna æfingaprógramm þar sem fólk kom til okkar á æfingu þrisvar í viku á íþróttarannsóknarstofuna okkar og svo vorum við með hóp sem notaði heilsuforrit. Við vorum svo með samanburðarhóp og niðurstöðurnar úr þeirri rannsókn voru að við drógum úr einkennum kæfisvefns um 19% hjá þeim sem voru í æfingahópnum,“ segir Katrín Ýr í samtali við mbl.is.

Hún segir þau hafa einblínt á hóp sem er með miðlungs kæfisvefn og uppfylli því ekki skilyrði um önnur meðferðarúrræði.

„Maður þarf að vera með alvarlegan kæfisvefn til að fá meðferðarúrræði. Við einblíndum á þann hóp til þess að draga úr því að þetta ágerist og verði alvarlegra.“

Æfingaprógrammið samanstóð af stöðvaþjálfun og rösklegri göngu þrisvar í viku í klukkustund í senn.

Hér er Katrín Ýr ásamt leiðbeinendum, deildarforseta , sviðsforseta og …
Hér er Katrín Ýr ásamt leiðbeinendum, deildarforseta , sviðsforseta og rektor Háskólans í Reykjavík. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Brjálaðar breytingar eru ekki nauðsynlegar

„Þetta var búið til fyrir þá sem eru ekki vanir að hreyfa sig, það er það sem er svo ótrúlega jákvætt, að það þarf ekki einhverjar brjálaðar breytingar til þess að draga úr alvarleika kæfisvefns.“

Hún segir kæfisvefn hafa ótrúlega víðtæk áhrif á okkur og að hann sé mun algengari en fólk heldur.

„Fullt af fólki sem skráði sig í rannsóknina okkar grunaði bara að það væri með kæfisvefn og svo voru miklu fleiri með meiri kæfisvefn en þeir bjuggust við en við sáum um greininguna hjá okkur og auglýstum bara á netinu.“

Íþróttirnar kenna svo margt

Katrín byrjaði í fótbolta aðeins fjögurra ára gömul og hefur alltaf haft brennandi áhuga á íþróttum.

„Íþróttirnar kenna manni svo margt, þrautseigju, að takast á við mótlæti, vera hluti af einhverju teymi og vinna með öðrum. Mér þykir þetta svo dýrmætt.“

Katrín segist aldrei hafa getað gert þetta ein og þakkar íþróttafræðideildinni í HR og öllum þeim sem hjálpuðu henni að láta af þessu verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert