Í dag er spáð fremur hægri austlægri eða breytilegri átt, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
Skýjað verði að mestu á landinu og dálítil væta hér og þar en „ekki er útlit fyrir að neinn landshluti sleppi alveg við úrkomu“.
Hiti verði á bilinu 7 til 15 stig, mildast á Vesturlandi.
Á morgun er spáð eilítið ákveðnari vindi en áttin verður áfram austlæg.
Búast má við rigningu eða súld með köflum en það ætti að haldast þurrt á norðanverðu landinu fram á síðdegið. Jafnframt verður hlýjast fyrir norðan, 16-17 stig þar sem best lætur.
„Á fimmtudag er síðan útlit fyrir vætusaman dag um allt land,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.