„Eins og þarna háttar til er mjög merkilegt að finna svona stórt tveggja skipa langhús eins og þau sem voru á járnöld og bronsöld,“ segir Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur í samtali við mbl.is um merkilegan fornleifafund í Tjeldsund í hinu norska Troms-fylki sunnanverðu, en mbl.is fjallaði um fundinn í gær.
Ragnheiður er búsett í Drammen, ekki langt sunnan norsku höfuðborgarinnar Óslóar, þótt hún dvelji stóran hluta ársins á Íslandi við fornleifarannsóknir. Sambýlismaður hennar er norski fornleifafræðingurinn Knut Paasche, deildarstjóri tækni- og stafrænnar fornleifadeildar við Menningarminjastofnunina Norsk institutt for kulturminneforskning (NIKU).
Það voru einmitt sérfræðingar NIKU sem fundu húsið í Tjeldsund með jarðsjármælingum við fornleifaskráningu og mælingar vegna fyrirhugaðrar vegagerðar. Ragnheiður rekur hins vegar fornleifafyrirtækið Antikva á Íslandi og starfar þar, en er jafnframt í töluverðu samstarfi við NIKU.
„Í ljós kom að ekki þurfti að grafa þarna vegna vegagerðar. Í kjölfarið hófst Háskólinn í Tromsø handa við rannsóknaruppgröft á svæðinu og hefur þar einnig haldið vettvangsskóla með þátttöku nemenda. Um er að ræða einstakt hús, því svona mannvirki hefur ekki áður fundist á þessum slóðum,“ segir Ragnheiður.
Tekur hún fram að stjórnandi verkefnisins í Troms gæti varúðar í orðalagi þar sem gripir, sem fundist hafi á vettvangi uppgraftarins, séu frá víkingaöld, en hins vegar sé ekki búið að aldursgreina húsið sem þar fannst. „Það er samt ekkert sem segir að tvískipað hús geti ekki verið frá víkingaöld og þetta er mjög merkilegt, þetta er mjög stórt hús, sambærilegt við Borg í Lofoten í stærð sem er þrískipað hús, víkingaaldarhús,“ heldur fornleifafræðingurinn áfram.
Ragnheiður er spurð út í samanburð við húsfundi á Íslandi og segir slíkan samanburð að nokkru leyti erfiðan þar sem fá hús frá víkingaöld hafi fundist og verið grafin upp í Noregi, auk þess sem varðveisla þeirra sé yfirleitt ekki jafn góð og á Íslandi.
„Vandamálið í Noregi varðandi hús frá víkingaöld er að mjög fá þeirra hafa fundist og verið grafin upp. Norðmenn hafa þó grafið upp fjölda húsa frá járnöld, en líklega höfum við nú fleiri hús frá víkingaöld á Íslandi. Það er því vel hægt að bera saman þau hús sem við höfum grafið upp við sambærileg hús sem hafa fundist hér í Noregi,“ útskýrir hún.
Hún bætir við að sambærilegt hús hafi þó ekki fundist á Íslandi frá þessum tíma – það er að segja tvískipt hús. Slíkt hús væri einnig einstakt í Noregi, ef það reyndist vera frá víkingaöld.
„Á síðustu árum höfum við grafið upp einstaklega vel varðveitta skála frá þessum tíma – til dæmis skála í Arnarfirði, Ólafsdal, Firði í Seyðisfirði og nú síðast fannst þriðji skálinn á Stöð í sumar,“ segir Ragnheiður af fræðum sínum.
Þarna sé um þrískipuð hús, eða skála, að ræða. „Skálaformið, eða langhúsið, er dæmigert fyrir öll hús á járnöld. Húsið í Troms er hins vegar tveggja skipa langhús, sem veldur því að menn eru ekki enn sannfærðir um að það sé frá víkingaöld. Öll þekkt hús sem hafa verið grafin upp frá þeim tíma eru þrískipuð. Einnig má nefna að á víkingaöld hættu menn að hafa skepnur í öðrum enda hússins. Á landnámsöld, bæði á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum, var farið að byggja sérstök skepnuhús,“ segir Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur að lokum um húsfundinn í Troms.
Allrar athygli vert verður að fylgjast með rannsókninni í Noregi næstu vikurnar og þegar aldursgreiningar liggja fyrir, en frá helstu niðurstöðum þeirrar vinnu verður greint hér á mbl.is.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.