Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann grunaðan um akstur undir áhrifum auk þess sem hann hafði ekið gegn rauðu ljósi, að því er segir í dagbók lögreglu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Kom í ljós að ökumaðurinn hafði verið sviptur ökuréttindum og með hníf meðferðis. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð í kjölfarið.
Annar ökumaður var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis. Of margir farþegar voru sömuleiðis í bifreiðinni og var rituð skýrsla vegna málsins.
Þá náðist á eftirlitsmyndavélar er brotist var inn í verslun og fé stolið úr peningakassa. Málið er í rannsókn.