Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar (MAST), segir gjaldskrárhækkun, sem Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL), hafa lýst sem stökkbreytingu á eftirlitskostnaði matvælafyrirtækja, eigi ekki að koma á óvart og verði meiri þegar fram líða stundir.
Hrönn segir í samtali við mbl.is að gjaldskrá Matvælastofnunar, sem sett hafi verið árið 2012, hafi aðeins hækkað tvisvar sinnum síðan þá þar til á síðasta ári. Hún hafi þannig ekki haldið í við neinar hækkanir í samfélaginu, hvort sem rætt sé um verðbólgu, laun eða hvað annað.
Aukinheldur segir hún gjaldskrána hafa verið töluvert flókna og ógagnsæja. Þannig hafi stofnunin farið í að endurskoða hana algjörlega frá grunni í samstarfi við KPMG. Það hafi leitt af sér að nýtt tímagjald hafi verið ákvarðað út frá raunkostnaði við eftirlit MAST.
„Gamla tímagjaldið var um það bil 9 þúsund krónur og eins og gefur að skilja var það tímagjald ekki í neinu samræmi við það sem gengur og gerist í okkar systurstofnunum, sambærilegum stofnunum eða í samfélaginu yfirhöfuð. Fiskistofa og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna eru t.d. með tímagjald í kringum 20 þúsund krónur,“ segir Hrönn.
Hún segir nýja tímagjaldið hafa verið um 100% hærra en það gamla en eins og staðan hafi verið á síðasta ári, og sé að einhverju leyti enn með verðbólgu í hæstu hæðum, hafi þáverandi ráðherra tekið pólitíska ákvörðun um að óskynsamlegt væri að innleiða gjaldskrána að fullu á einu bretti.
„Þáverandi tímagjald var hækkað um 3,5% og ráðgert að hækka gjaldskrána í stærri stökkum á komandi árum, þar til hún væri komin í það horf að hún myndi endurspegla raunkostnað stofnunarinnar við eftirlit.
Næsta skref var að hækka gjaldskrána um 30%, sem mun væntanlega halda áfram af því við erum enn langt undir raunkostnaði og erum þar af leiðandi að nýta fjármagn af fjárlögum, sem ætti að fara í önnur verkefni, til að halda úti kjarnastarfsemi okkar og þessu mikilvæga starfi sem eftirlit er,“ segir Hrönn.
Hún undirstrikar mikilvægi þessarar leiðréttingar gjaldskrárinnar og bendir á að almennir skattgreiðendur hafi hingað til verið að greiða fyrir eftirlit þessara fyrirtækja.
Hrönn segir leiðréttinguna ekki eiga að koma neinum hagsmunaaðilum á óvart. Áformin hafi verið kynnt ítarlega fyrir öllum hagsmunasamtökum, þar sem þetta hafi greinilega komið fram.