Lögreglan, Skatturinn og Vinnueftirlit ríkisins framkvæmdu sameiginlegt eftirlit hjá fjölda fyrirtækja á Norðurlandi vestra í síðustu viku. Voru aðilar kærðir í kjölfar aðgerðanna fyrir að hafa haft einstakling í vinnu án þess að hann hefði atvinnuleyfi á Íslandi.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi vestra segir að markmið eftirlitsins hafi verið að tryggja að farið væri að lögum og reglum í tengslum við réttindi og stöðu starfsfólks, skattamál og fleira því tengdu.
„Kannað var meðal annars hvort starfsfólk hefði gild dvalar- og atvinnuleyfi, hvort húsnæði uppfyllti kröfur og þess háttar,“ segir í tilkynningunni. Þar kemur einnig fram að fyrir utan kæruna vegna einstaklingsins sem ekki hafði atvinnuleyfi hafi önnur frávik komið í ljós sem skoða þurfi sérstaklega.
„Við þökkum öllum fyrirtækjunum sem tóku vel á móti okkur og minnum á að slíkt eftirlit verður endurtekið síðar í sumar,“ segir í tilkynningunni að lokum.