Lýsa áhyggjum af bákni í kringum kílómetragjald

Greiða skal í ríkissjóð kílómetragjald af akstri ökutækja samkvæmt fyrirhugaðri …
Greiða skal í ríkissjóð kílómetragjald af akstri ökutækja samkvæmt fyrirhugaðri gjaldtöku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirhugað kílómetragjald sem er í burðarliðnum gæti hækkað verð á bílaleigubílum um 12-17% að því er kemur fram í áliti minnihlutans sem Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokka er framsögumaður á. Leggst minnihlutinn gegn frumvarpi um upptöku kílómetragjalds. 

Helgast það af því að ekki verður lengur innheimt gjald við bensíndælu, heldur verður lagt gjald á hvern ekinn kílómetran sem t.a.m hækkar verð á bílaleigubílum. Gæti þetta m.a. haft áhrif á samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar að mati þeirra þingmanna er leggja álitið fram. Það eru auk Vilhjálms, Stefán Vagn Stefánsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir úr Sjálfstæðisflokki og Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir úr Miðflokki. 

Um 300 þúsund ökutæki 

Í álitinu er lýst áhyggjum af því bákni sem eftirlit með kílómetragjaldi mun bera með sér auk þess sem fyrirhugað sé að íþyngjandi verði fyrir fyrirtæki og einstaklinga í landinu að skrásetja stöðu kílómetra á um 300 þúsund ökutækjum í landinu.

„Fyrirhugað kílómetragjaldskerfi (er) mun flóknara (en fyrra kerfi) og veldur verulegum áhyggjum vegna óskilvirkni. Fyrst ber að nefna aukna umsýslu sem felst í að skrá nákvæma notkun ökutækis, sem krefst sérstaks tækja- og hugbúnaðar og eftirlits. Þetta leiðir til aukins kostnaðar fyrir notendur og stjórnkerfið. Skráningarkrafan eykur hættu á mistökum sem geta leitt til rangrar innheimtu og íþyngjandi eftiráleiðréttinga,“ segir í álitinu. 

Vilhjálmur Árnason.
Vilhjálmur Árnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afstemmingar, ófyrirsjáanleiki og flækjustig 

Þá er á það bent að kerfið muni auka álag á stjórnsýsluna þar sem ríkið þarf að halda úti eftirliti og umsjón með skráningum. 

„Auk þess að innheimta gjöld eftir á sem kallar á umfangsmikla vinnu við afstemmingar. Þetta getur haft áhrif á almenning með því að skapa ófyrirsjáanlegan kostnað og flækjustig í fjárhagsáætlanagerð einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Kerfið verður óþarflega flókið og tímafrekt og eykur auk þess möguleika á mistökum, misræmi og jafnvel undanskotum,“ segir m.a. í álitinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert