Franski maðurinn sem fannst látinn ásamt dóttur sinni á hótelherbergi á Edition-hótelinu er sagður hafa glímt við alvarlega nýrnabilun. Maðurinn hafi verið illa á sig kominn vegna þessa og hefði þurft að vera reglulega í skilunarvél.
Fréttastofa Rúv greindi frá.
Eins og greint hefur verið frá er eiginkona mannsins grunuð um að hafa ráðið honum og dóttur þeirra bana og var hún upphaflega þann 14. júní úrskurðuð í gæsluvarðhald til föstudagsins 20. júní en síðan hefur það verið framlengt til 4. júlí, á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Lögregla hefur ekki gefið upp nöfn fólksins en samkvæmt umfjöllun Rúv er maðurinn frá eyjaklasa í Suðvestur-Kyrrahafi, Nýju-Kaledóníu, sem tilheyrir Frakklandi, konan fædd í Frakklandi en foreldrar hennar báðir frá Asíu.
Segir einnig í umfjöllun Rúv að fjölskyldan hafi verið efnuð en ekkert þeirra sé á hefðbundnum samfélagsmiðlum. Hún hafi komið hingað til lands þann 7. júní og hagað sér eins og farið í dagsferðir en gist allar nætur á Edition-hótelinu.
Hún hefði átt að fljúga aftur heim til Dyflinnar, þangað sem hún flutti frá Frakklandi árið 2017, morguninn sem hún fannst.