Icelandic Film School mótmælir notkun Rafmenntar á nafni Kvikmyndaskóla Íslands og hafa mótmælin verið kynnt skiptastjóra Kvikmyndaskóla Íslands, báðum menntamálaráðuneytum, Hugverkastofu sem og alþjóðasamtökum kvikmyndaháskóla.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Icelandic Film School og Böðvari Bjarka Péturssyni, formanni stjórnar Icelandic Film School.
Böðvar Bjarki var áður eigandi Kvikmyndaskólans en Rafmennt keypti nafn, vörumerki, búnað og önnur verðmæti skólans í kjölfar þess að rekstrarfélag skólans fór í gjaldþrotameðferð.
Frá því að Rafmennt tók við rekstri skólans hefur Böðvar Bjarki ítrekað mótmælt notkun notkun Rafmenntar á nafni og námsskrá Kvikmyndaskólans en Þór Pálsson, skólastjóri Rafmenntar, hefur vísað mótbárum Böðvars Bjarka á bug.
Í yfirlýsingunni segir að röksemdirnar fyrir mótmælunum sé „augljós hagsmunaárekstur“ við Icelandic Film School, sem heldur samkvæmt yfirlýsingunni úti sömu starfsemi og Kvikmyndaskóli Íslands, enda hafi skólarnir verið í samlifandi rekstri sem ein stofnun í eigu sömu aðila um margra ára bil.
Jafnframt er það gagnrýnt í yfirlýsingunni að Kvikmyndaskóli Íslands ætli að endurskilgreina nám skólans sem handverks- og iðnnám fremur en listnám.
Það segir í yfirlýsingunni að notkun heitis, kennsluskrár og skipulags Kvikmyndaskóla Íslands hafi þrívegis verið mótmælt skriflega til Rafmenntar. Nemendum hafi verið veitt heimild til notkunar á framangreindu fram yfir útskrift og var notkuninni síðan mótmælt aftur að útskrift lokinni, í ljósi þess að Rafmennt hefur ekki látið segjast hefur notkuninni því verið mótmælt opinberlega.