Leiðtogafundur NATO, sem hófst í hollensku borginni Haag í dag, fer fram í skugga átaka í Mið-Austurlöndum og Úkraínu. Líkt og gefur að skilja er því mikill viðbúnaður í kringum fundinn enda þar samankomnir helstu leiðtogar hins vestræna heims.
Kristinn Ingvarsson er búsettur í Haag ásamt fjölskyldu sinni, aðeins spölkorn frá fundarstaðnum.
Mikill viðbúnaður er á götum borgarinnar og nálægt heimili hans, en um 27 þúsund her- og lögreglumenn sinna öryggisgæslu og standa vaktina víða um borgina. Lokað hefur verið fyrir nánast alla bílaumferð á afar stóru svæði í kringum fundinn og má segja að samfélagið sé í hálfgerðum dvala.
Kristinn segir undirbúning fyrir fundinn hafa hafist með götulökunum í apríl og að viðbúið sé að fundurinn komi svo til með að hafa áhrif á líf fólks eitthvað áfram.
„Fram að fundinum hefur verið mikið um viðvaranir frá stjórnvöldum um að vera ekki ferðinni. Biðlað er til fólks að nota ekki bíla og brýnt fyrir því að halda sig heima fyrir. Skólum hefur einnig verið lokað svo mun færra fólk er á ferli en gengur og gerist í hverfniu,“ segir Kristinn aðspurður.
Þekkt er einnig að þegar athygli heimsins beinist að viðburðum sem þessum, reyni mótmælendur að koma sér og málstað sínum á framfæri. Kristinn segist ekki hafa orðið var við neitt slíkt, en nokkuð hafi þó verið um netárásir í aðdraganda fundarins.
Þrátt fyrir allt þetta segir Kristinn sjaldan hafa verið jafn gott að vera í Haag og núna sökum þess hve rólegt sé nú í borginni.
„Mér finnst aðdáunarvert hvað Hollendingar eru hlýðnir. Þrátt fyrir þessar lokanir er alveg líf en það eru bara engir bílar á ferðinni,“ segir Kristinn.
„Allir lögreglu- og hermenninir hér eru líka ofboðslega vinalegir, heilsa bæði og brosa til manns.“ bætir hann við.