Landris undir Svartsengi sveiflast dag frá degi. Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir hökt á landrisi geta gefið til kynna að virkni fari að stöðvast.
„Ef maskínan er aðeins farin að hökta? Við vitum alveg hvað gerist þegar við erum að verða bensínlaus, þá fer druslan að hökta og gefur ýmislegt til kynna að hún sé að fara að hægja á sér og stoppa. Kannski eru Sundhnúkarnir bara að verða bensínlausir.“
Þorvaldur segir gögnin benda til að Reykjanesskaginn hafi ákveðið að fara snemma í sumarfrí en segir þá að sama skapi hann komi snemma úr fríi.
Segir hann að innflæði kviku inn í grunnstæða kvikuhólfið sé um 2 rúmmetrar á sekúndu og ef innflæðið heldur áfram eins og það er og landrisið einnig megi búast við því að eitthvað fari að gerast upp úr miðjum júlí og fram í miðjan ágúst.
„Ef atburður fer af stað er líklegt að við fáum gos og líklegt að það verði á svipuðum stað, þarna rétt sunnan Stóra-Skógfells. Sprungan myndi þá lengjast til annað hvort norðurs eða suðurs nema hvort tveggja væri,“ segir Þorvaldur.
Á hann von á að gos verði álíkt því sem varð síðast en spurning sé hversu lengi það komi til með að vara. Það fari eftir hversu mikið rúmmál komi upp.
„Magnið sem safnast fyrir hefur aukist aðeins milli atburða með tímanum. Í mars var það um 20 milljón rúmmetrar en núna er það komið upp undir 25 milljón. Ef við gerum ráð fyrir 25 milljón rúmmetrum erum við að horfa á mánaðamótin júlí-ágúst,“ segir hann og útskýrir að það sé óvissa í gögnum.
„Þetta gefur ekki til kynna að mikill munur sé á skoðunum milli sérfræðinga, gögnin eru bara ekki með meiri upplausn en þetta.“
Af öðrum virkum svæðum segir Þorvaldur mikla virkni sjáanlega í Móhálsadal og við Krísuvík. „Mann grunar að kvika sé farin að safnast fyrir undir því svæði enda er það þekkt gossvæði. Um er að ræða gossprungur milli Sveifluháls og Trölladyngju sem liggja þarna norður eftir. Ef sú rein fer af stað getum við fengið gos nægilega norðarlega að það hafi bein áhrif á Stór-Reykjavíkursvæðið.“
Þess utan segir hann Reykjanesið hafa verið duglegt að minna á sig með skjálftahrinum sem að hans mati benda til að kvika sé einnig að safnast þar fyrir.
„Ef Reykjanesið fer af stað getum við fengið gos í sjó með tilheyrandi truflandi áhrifum á flugumferð á Keflavíkurflugvelli,“ segir Þorvaldur.