„Það er eitthvað að, það er eitthvað klikkað“

Sigurjón og Njáll á samsettri mynd.
Sigurjón og Njáll á samsettri mynd. mbl.is/Kristinn Magnússon/Eyþór

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, sagði á Alþingi í morgun að búið væri að vinna veiðigjaldsfrumvarpið mjög vel og náin samskipti hefðu verið höfð við aðila í samfélaginu, þar á meðal Skattinn og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Áður hafði Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnt Sigurjón fyrir að tala í salnum um „klikkað lið” í tengslum við umræðu stjórnarandstöðunnar um veiðigjöldin og ummæli forsætisráðherra í Kastljósi í gær. Sagði Njáll Trausti framkomu Sigurjóns vera gjörsamlega óþolandi.

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í ræðu sinni talaði Sigurjón um „viðkvæmu blómin í Sjálfstæðisflokknum” og bætti við:

„Þær ræður sem hafa verið fluttar hér úr þessum ræðustól undanfarna sólarhringa hafa nú verið með þeim hætti að hér hafa jafnvel verið ástundaðar blekkingar,” sagði hann.

„Hvað eru það annað en falsfréttir?“ hélt hann áfram og sagði málflutning stjórnarandstöðunnar billegan og að hann væri stjórnarandstöðunni til skammar.

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins..
Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins.. mbl.is/Eyþór

„Það er eitthvað að, það er eitthvað klikkað þegar menn koma hérna fram í þessu máli sem hér er um að ræða og líkja mönnum jafnvel við Trump, menn eru orðnir kommúnistar, menn geta þess til að forsætisráðherra hafi próf frá Sovétríkjunum og ráðuneyti ástundi blekkingar,” sagði hann jafnframt.

„Það er eitthvað að, það er eitthvað klikkað.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert