Eldur kom upp í gærkvöldi í húsnæði þvottahússins Fannar á Kletthálsi. Upptök eldsins eru enn óljós en Þorvarður Helgason verkstjóri segir líkur á að eldurinn hafi kviknað út frá þvotti sem beið afgreiðslu þó að nánari atburðarás sé óljós.
Meðal þess þvotts sem var til afgreiðslu hjá Fönn var þvottur frá þvottahúsinu Björg við Háaleitisbraut þar sem einnig kveiknaði í þann 19. júní síðastliðinn.
Þorvarður segist ekki geta fullyrt neitt hvort aðeins sé um tilviljun að ræða en sú staðreynd að þvottur frá Björg sem sendur hafi verið til meðhöndlunar hjá Fönn og einnig lent í bruna sé óneitanlega óheppileg.
„Við fengum þann þvott inn í hús til okkar í gærmorgun og tókum að okkur að hjálpa þeim að græja þann þvott sem þeir áttu eftir að skila af sér. Hvort að einhver tenging sé milli þessara bruna veit ég þó ekki,“ segir Þorvarður.
Þorvarður segir einhverjar skemmdir hafa orðið á þvotti en ekki sé komið í ljós hversu mikið tjónið sé. Ekki þurfi þó að gera hlé á starfsemi fyrirtækisins sökum brunans.
„Við vorum vel varin en úðarakerfi er í öllu húsinu sem hjálpaði eflaust mikið til að eldurinn næði ekki að breiðast mikið út. Securitas voru líka fljótir á staðinn og þremur mínútum síðar var slökkviliðið komið.“
„Starfsfólkið mætti svo klukkan sex í morgun og við fórum bara í það að þrífa húsnæðið, og svo var öll vinnsla komin á fullt klukkan hálf átta í morgun þannig að þetta stoppaði ekki neitt,“ segir Þorvarður.
Leiðrétting:
Í upphaflegri greininni stóð að sami þvotturinn hefði lent í bruna á hjá báðum þvottahúsum. Hið rétta er að sá þvottur sem þvottahúsið Fönn hafði til meðhöndlunar frá þvottahúsinu Björg lenti ekki í fyrri brunanum. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.