Kristrún: „Sterkasta varnarbandalag í heiminum“

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra ræða við …
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra ræða við Donald Trump Bandaríkjaforseta. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Einhugur og samstaða einkenndi leiðtogafund aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í Haag í Hollandi, sem sóttur var af Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra. Fundurinn var haldinn í skugga árásarstríðs Rússlands í Úkraínu og átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

Að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins var í aðdraganda fundarins rætt um nauðsyn þess að auka framlög til varnarmála til að efla sameiginlegar varnir bandalagsríkja. Leiðtogarnir sammæltust um að auka bein fjárframlög til varnarmála úr 2% í 3,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) og að því markmiði verði náð árið 2035.

Því til viðbótar muni bandalagsríki verja 1,5% af VLF til varnartengdra fjárfestinga og framlaga sem styðja við áfallaþol, öryggi og varnir. Undir það geta fallið ýmiskonar innviðir, samgöngumannvirki, netöryggi, löggæsla, landhelgisgæsla og eftirlit á landamærum svo dæmi séu nefnd.

„Við munum vinna markvisst að því að efla innviði“

„Þetta var sögulegur leiðtogafundur. Það sem helst stendur upp úr er órjúfanleg samstaða aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins sem er sterkasta varnarbandalag í heiminum,“ er haft eftir forsætisráðherra úr tilkynningunni.

„Varðandi framlög til varnarmála þá er ríkur skilningur á sérstöðu Íslands og þeirri staðreynd að við höfum ekki her. Okkar framlag mun áfram felast fyrst og fremst í því að veita aðstöðu, búnað og stuðning við bandalagsríki sem efla öryggi og varnir bandalagsríkja.

Við munum vinna markvisst að því að efla innviði sem styðja við áfallaþol, öryggi og varnir Íslands, samkvæmt markmiðinu um 1,5% af VLF til varnartengdra verkefna.“

Dick Schoof, forsætisráðherra Hollands, og Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, bjóða …
Dick Schoof, forsætisráðherra Hollands, og Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, bjóða Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, velkomna á leiðtogafundinn. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Fyrir öryggi og fullveldi allra Evrópuríkja og þar með talið okkar“

Á leiðtogafundinum var ítrekaður einróma stuðningur aðildarríkjanna við baráttu Úkraínu gegn grimmilegri árás Rússlands.

„Það skiptir öllu máli að styðja við Úkraínu, sem berst ekki aðeins fyrir eigin tilverurétti, lýðræði og frelsi, heldur einnig fyrir öryggi og fullveldi allra Evrópuríkja og þar með talið okkar,“ er haft eftir utanríkisráðherra úr tilkynningunni.

„Úkraína hefur lýst yfir vilja til vopnahlés og friðarviðræðna og einarður varnarstuðningur tryggir sterkari samningstöðu Úkraínu.“

Frá leiðtogafundinum.
Frá leiðtogafundinum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Áttu samtöl um samstarf Íslands á alþjóðavísu

Bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra nýttu tækifæri sem gáfust á milli formlegra funda til að eiga samtöl um samstarf Íslands á alþjóðavísu. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra funduðu með leiðtogum Kanada og Norðurlanda um aukið samstarf m.a. á norðurslóðum og öryggismál í Norður-Atlantshafi.

Þá funduðu utanríkisráðherrar Norðurlanda sín á milli um stuðning við Úkraínu og önnur sameiginleg verkefni.

Sameiginlega yfirlýsingu leiðtogafundar Atlantashafsbandalagsins, sem samþykkt var einróma við lok fundarins, er að finna hér.

Leiðtogar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins ásamt framkvæmdastjóranum Mark Rutte.
Leiðtogar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins ásamt framkvæmdastjóranum Mark Rutte. Ljósmynd/Stjórnarráðið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert