Framboð raforku hérlendis hefur ekki náð að halda í við vaxandi eftirspurn og að óbreyttu á vandinn eftir að halda áfram að aukast hér á næstu árum.
Aðgerðir til þess að draga úr kolefnislosun, þungt reglufargan og deilur við landeigendur eru þeir þættir sem vega hvað þyngst í því að framboð raforku sé ekki meira en raun ber vitni.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu OECD um Ísland sem var kynnt í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í dag af Mathias Cormann, framkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
Í skýrslunni kemur fram að nægt framboð af ódýrri grænni orku hafi í áratugi verið burðarás í framþróun íslensks efnahags. Það virðist þó vera liðin tíð.
Í skýrslunni segir að frá því á 7. áratugnum hafi Íslendingar nýtt nær einungis vatnsafl og jarðvarma til orkuöflunar og að sú ákvörðun að nýta orkuna til stóriðju hafi verið vendipunktur í sögu íslensks efnahags.
Framboðsaukning hefur hins vegar dregist markvisst saman frá því í kringum 1995 og hefur það leitt til þess að raforkuöryggi hefur farið minnkandi.
Bilið á milli framboðs og eftirspurnar á raforkumarkaði mun ef fram fer sem horfir halda áfram að aukast og OECD óttast að það stefni í það að jarðefnaeldsneyti verði nýtt í auknum mæli til raforkuframleiðslu á næstu áratugum að óbreyttu.
Í skýrslunni kemur fram að flutningsmannvirki séu mörg illa farin og hafi ekki verið endurnýjuð í fleiri áratugi.
Flutningsgetan er nú komin að þolmörkum og hefur það meðal annars þegar leitt til þess að Kárahnjúkavirkjun starfar ekki á fullum afköstum vegna þess að flutningsmannvirki á Austurlandi myndu ekki ráða við það.
Tilraunir til þess að endurnýja flutningsmannvirki landsins hafa ekki tekist nægilega vel og er það að mestu því að kenna að landeigendur og umhverfissamtök hafa sett sig upp á móti framkvæmdum samkvæmt skýrslunni.
Skýrslan kemur inn á það að vilji sé fyrir hendi hjá framkvæmdaaðilum að reisa nýjar virkjanir og taka þannig á þeim framboðsskorti sem hefur myndast.
Þungt regluverk og erfiðleikar við að öðlast virkjunarleyfi hafa hins vegar leitt til þess að hægt hefur á framkvæmdum. Leyfisveitingarferlinu er lýst sem óútreiknanlegu í skýrslunni.
Skýrsluhöfundar telja nauðsynlegt að breytingar verði gerðar á regluverki er varðar raforkuframleiðslu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
