„Byrjað að segja upp fólkinu á gólfinu“

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Suðurkjördæmis, lét sig ekki vanta í umræðum …
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Suðurkjördæmis, lét sig ekki vanta í umræðum um veiðigjöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag ákvörðun Arctic Fish um að loka fóðurstöð á Þingeyri vera skýra birtingarmynd af þeirri þróun sem hann telur þegar hafna vegna fyrirhugaðra breytinga á veiðigjöldum.

Arctic Fish tilkynnti fyrir helgi að fóðurstöðin á Þingeyri yrði færð á Ísafjörð þar sem fyrirtækið er þegar með starfsemi.

Þingmenn hafa lýst yfir óánægju með þessa ákvörðun og Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur sagt að hann ætli að gera allt sem hann getur til að stöðva þessa framkvæmd.

Stjórnvöld ættu að líta sér nær

Vilhjálmur sagði eðlilegt að menn væru óánægðir með ákvörðun fyrirtækisins en benti á það að erfið rekstrarskilyrði væru einmitt ástæðan fyrir ákvörðun fyrirtækisins.

Því væri undarlegt að stjórnarþingmenn styddu við veiðigjaldafrumvarpið, þar sem hann teldi að aðeins mætti vænta fleiri frétta af hagræðingu fyrirtækja ef það verður samþykkt. 

„Það var einmitt þannig sem forsvarsmenn Arctic Fish komu fram og sögðu að stjórnvöld ættu að líta sér nær. Því hærri álögur sem fyrirtæki fá og því meira íþyngjandi regluverk sem fyrirtækin búa við, því meira krefjast þau til þess að hagræða í sínum rekstri,“ sagði Vilhjálmur.

Í umræðunni vék Vilhjálmur einnig að áhyggjum byggða á Vestfjörðum vegna frumvarpsins og sagði að fjölgun slíkra frétta, líkt og þeirrar sem kom frá Þingeyri fyrir helgi, væri fyrirsjáanleg ef frumvarpið næði fram að ganga. 

Þegar byrjað að selja skip

Vilhjálmur sagði að í frumvarpinu um veiðigjöld kæmi fram að einu áhrifin af frumvarpinu væru viðskiptalegs eðlis. Hann sagði ákvörðun Arctic Fish dæmi um slíka viðskiptalega ákvörðun.

„Ef fyrirtækin, hvort sem sé í fiskeldi, sjávarútvegi, ferðaþjónustu eða hvar sem er, búa við hagkvæmt og gott rekstrarumhverfi, þá getum við sett á þau kröfur. Þá getum við skammað fyrirtækin og sagt: „Hingað og ekki lengra, svona komið þið ekki fram“. En á meðan við erum að skattpína fyrirtæki, setja íþyngjandi kröfur á þau, þá er erfitt fyrir okkur að koma fram í fjölmiðlum og hneykslast á þeirra viðskiptalegu ákvörðunum,“ sagði Vilhjálmur.

Hann sagði að ríkisstjórnin yrði að kannast við ábyrgð sína og að allar gjörðir hennar hefðu áhrif. Hann sagði til dæmis að í Ólafsvík hefðu þegar sjö störf tapast.

„Bara það eitt að leggja fram veiðigjöldin [frumvarpið] hefur orðið til þess að það er byrjað að selja skip, það er byrjað að færa aflaheimildir á milli eigenda og það er byrjað að segja upp fólkinu á gólfinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert