Íslensk stelpa slær í gegn í norskum þáttum

Lilja Árnadóttir-Olvik var yngsti keppandi Bakermesterskapet í ár.
Lilja Árnadóttir-Olvik var yngsti keppandi Bakermesterskapet í ár. Ljósmynd/Lage Ask/NRK

Lilja Árnadóttir Olvik hefur slegið í gegn í norsku þáttunum Bakermesterskapet Junior sem er bökunarkeppni fyrir ungmenni. Hún var aðeins tíu ára þegar keppnin fór fram og var langyngst, eða tveimur til þremur árum yngri en aðrir keppendur.

Alls voru átta keppendur, fjórar stelpur og fjórir strákar, og voru þættirnir sýndir í apríl á NRK. Lilja segir það hafa verið mjög skemmtilegt að taka þátt í keppninni en hún hefur lengi haft áhuga á bakstri.

Lilja tekur við makkarónupöntunum og hefur selt makkarónur fyrir margar …
Lilja tekur við makkarónupöntunum og hefur selt makkarónur fyrir margar veislur í vor. Ljósmynd/Aðsend

Bakaði í fyrsta skipti með ömmu sinni á Íslandi

„Ég hef bakað frá því að ég var mjög ung og bakaði í fyrsta skipti með ömmu minni á Íslandi, örugglega brownies,“ segir Lilja, sem býr í Valdres í Noregi með fjölskyldu sinni en faðir hennar er íslenskur og er hún því hálfíslensk.

Aðspurð hvað henni þyki skemmtilegast að baka segir hún það vera makkarónur en Lilja tekur nú við pöntunum og bakar og selur makkarónur. Hún hefur bakað fyrir þónokkrar veislur í Noregi í vor.

„Mér finnst skemmtilegast að baka makkarónur, bleikar, þær eru með ástaraldin- og súkkulaðibragði.“

Hér má sjá Lilju við keppnina.
Hér má sjá Lilju við keppnina. Ljósmynd/Lage Ask/NRK

Alltaf kökuboð á heimilinu

Lilja bakar oftast makkarónur og marsípankökur og eru foreldrar hennar virkilega heppnir þar sem það eru alltaf kræsingar á boðstólum í boði Lilju.

Hvað bakaðirðu í keppninni?

„Ég bakaði tvisvar marsípanköku, bollakökur, smákökur og súkkulaðiköku.“

Hér má sjá Lilju unga við bakstur eða öllu heldur …
Hér má sjá Lilju unga við bakstur eða öllu heldur við smakk. Ljósmynd/Aðsend

Keppnin fór þannig fram að þau voru ein síns liðs, fengu verkefni og höfðu tvo klukkutíma til að klára það. Fyrir fjórar af kökunum sem þau bökuðu í keppninni fengu þau tækifæri til að æfa sig heima.

Hvað er eftirminnilegast úr keppninni?

„Það sprakk blaðra í andlitið á mér,“ segir Lilja kímin, en ein þrautin var að blása upp blöðru og setja bráðið súkkulaði utan um hana. Svo þegar súkkulaðið var orðið hart átti hún að sprengja blöðruna og úr varð súkkulaðiform.

Lilja bakaði í fyrsta skipti með ömmu sinni frá Íslandi.
Lilja bakaði í fyrsta skipti með ömmu sinni frá Íslandi. Ljósmynd/Lage Ask/NRK

Eins og að vera með einkakokk

Faðir Lilju segir þau foreldrana geta hringt í hana þegar þau eru á leiðinni heim úr vinnunni og beðið hana um að byrja að elda kvöldmat, svolítið eins og að hafa einkakokk á heimilinu, en Lilja er ekki bara í bakstrinum heldur eldar hún líka.

Móðir Lilju segir hana frá unga aldri hafa viljað hjálpa …
Móðir Lilju segir hana frá unga aldri hafa viljað hjálpa til í eldhúsinu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert