Aðalfundi Vorstjörnunnar, styrktarfélags Sósíalistaflokksins, sem fram fór nú fyrr í kvöld var slitið snarlega þegar einn fundargesta bar upp spurningu um í hvaða góðgerðastarfsemi fjármunir félagsins hefðu runnið.
Gjaldkeri félagsins, Sara Stef Hildardóttir, tók þá til máls og bar það fyrir sig að mikilvægar upplýsingar hefðu verið yfirteknar af nýrri stjórn Sósíalistaflokksins og að því gæti hún ekki svarað spurningunni frekar.
Lagði fundarstjórinn, María Lilja Þrastardóttir Kemp, þá snögglega til að fundi yrði slitið og var sú tillaga samþykkt af miklum meirihluta viðstaddra.
Mikill hiti var á fundinum en þar voru ársreikningar félagsins samþykktir sem og ný stjórn kjörin. Þar laut hópurinn sem gerði hallarbyltingu í Sósíalistaflokknum fyrr í sumar í lægra haldi fyrir þeirri fylkingu sem hliðholl er Gunnari Smára Egilssyni og Sönnu Magdalenu Mörtudóttur.
Þeir Karl Héðinn Kristjánsson og Trausti Breiðfjörð Magnússon, kváðu sér einnig hljóðs á fundinum en þeir tilheyra báðir þeim hópi sem gerði hallarbyltingu í flokknum fyrr í sumar.
Mótmæltu þeir harðlega störfum framkvæmdastjórnar Vonarstjörnunnar og sagði Karl Héðinn að félagið hefði frekar starfað sem lokaður hópur á vegum Gunnars Smára en góðgerðarsamtök.
Þá sagðist Trausti, sem styrkti félagið um rúmar tvær milljónir króna, ekki hafa fengið neinar upplýsingar um í hvaða fjármunir félagsins hefðu runnið.
Sara Stef, gjaldkeri félagsins vísaði þá kröfu hans um rétt til upplýsinga á bug. Sagði hún að þó einstaklingur ákvæði af sínum sjálfsdáðum að styrkja félagið, ætti hann ekki rétt á að fá ítarlega sundurliðun á því í hvað þeir fjármunir hefðu runnið.
Fundurinn sem fram fór nú í kvöld var fyrsti aðalfundur sem haldinn hefur verið frá því að styrktarfélaginu var komið á fót árið 2021.
Frá stofnun hefur hluti fjárframlaga ríkisins til Sósíalistaflokksins runnið í gegnum flokkinn til Vorstjörnunnar sem og hluti styrks Reykjavíkurborgar til flokksins. Þá hafa borgarfulltrúar flokksins einnig látið hluta af launum sínum renna til félagsins um nokkurt skeið.
Síðan félagið var stofnað hefur þó lítið spurst af meintri góðgerðastarfsemi, en einu styrkirnir sem greiddir hafa verið út var 30.000 kr. styrkur til samtakana Pepp, félags fólks í fátækt og félagslegri einangrun en einnig hlutu Leigjendasamtökin styrk upp á fimm milljónir króna, með því skilyrði að honum yrði varið í að greiða leigu til Vorstjörnunnar fyrir afnot af húsnæði hennar.