Andlát: Kristján Skagfjörð Thorarensen

Kristján Skagfjörð Thorarensen, meistari í húsgagnabólstrun og verslunarmaður, lést á Landspítalanum 21. júní sl.

Hann fæddist í Reykjavík 22. júní 1954. Foreldrar hans voru Aðalsteinn Thorarensen, meistari í húsgagnasmíði, og Hrönn Skagfjörð húsmóðir.

Kristján hóf nám í bólstrun hjá Herði Péturssyni og lauk sveinsprófi 1977. Fyrstu starfsárin vann hann hjá HP húsgögnum í Reykjavík. Árið 1986 stofnaði hann eigin verslun og verkstæði, þar sem frumkvæði hans og drifkraftur lögðu grunn að farsælum rekstri. Þar framleiddi hann eigin húsgögn, einkum sófa og sófasett, en hafði einnig með höndum innflutning.

Verslunin hóf starfsemi undir nafninu Öndvegi í Síðumúla en flutti árið 2012 í Ármúla 8, þar sem hún starfar enn í dag undir nafninu Heimahúsið. Félagið er enn í eigu fjölskyldunnar og hafa þrjár kynslóðir komið að rekstrinum á mismunandi tímum og á tímum allar saman.

Kristján gegndi stöðu varaformanns Meistarafélags bólstrara um árabil. Með aukinni alþjóðavæðingu hefur sú dýrmæta fagþekking sem hann bjó yfir orðið sífellt fágætari hér á landi, þar sem innlend framleiðsla húsgagna á í vaxandi samkeppni við fjöldaframleiðslu frá láglaunasvæðum erlendis.

Eftirlifandi eiginkona Kristjáns er Málfríður Vilhelmsdóttir. Dætur þeirra eru Hrönn og Klara Sigríður og barnabörnin fjögur.

Kristján verður jarðsunginn frá Háteigskirkju miðvikudaginn 9. júlí kl. 13.00.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert