Gunnar Smári Egilsson segir að hann muni ekki koma nálægt starfsemi Sósíalistaflokksins að nýju, jafnvel þó vindar myndu breytast í flokknum. „Minn tími er liðinn,“ segir Gunnar Smári.
Hann telur nýja stjórn flokksins sem tók við eftir hallarbyltingu á aðalfundi í maí ekki hafa neinn stuðning og telur góðan jarðveg fyrir nýtt stjórnmálaafl félagshyggjufólks. Nefnir hann að kjósendur Vinstri grænna, Pírata og jafnvel hluti Samfylkingarfólks gæti hugsað sér að veita atkvæði sínu í þá átt og að fólk sé að ræða saman fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Sjálfur segist hann þó ekki vera á leið í stjórnmál.
Hann segir að menn úr núverandi stjórn Sósíalistaflokksins sjái sig í hverju horni og telji að hann stýri öðru fólki eins og strengjabrúðum. Það sé hins vegar öðru nær og hann átti sig ekki á því hvers vegna svo sé. „Þeir sjá mig í öllum skúmaskotum,“ segir Gunnar. „En það er bara móðgun við Sönnu og fleiri sem þurfa að sitja undir þessu,“ segir Gunnar.
Eins segir hann ekkert til í því að einhverra sátta hafi verið leitað af hálfu stjórnar sósíalista þannig að Samstöðin gæti áfram rekið sjónvarpsstöð í húsnæði í Bolholti.
„Ég veit ekki hvaða sátt það er. Einu samskipti mín við Karl Héðin (Kristjánsson) og Sæþór Benjamín (Randalsson) voru um að aðskilja spjallþráðinn Rauða þráðinn frá Sósíalistaflokknum. Svo sá ég Karl Héðin segja í Silfrinu að flokkurinn hygðist styðja Samstöðina áfram en þá með ströngum skilyrðum. Mér skildist helst að hann vildi taka sér dagskrárvald. Að hann vildi stýra fjölmiðlinum með því að leggja í hann pening. Ég efast um að það standist lög,“ segir Gunnar Smári.
En Karl Héðinn nefndi sérstaklega að sáttaumleitunum hefði verið hafnað á fimmtudag.
„Já, það er vegna þess að hann heldur alltaf að hann sé að tala við mig þegar hann er að tala við annað fólk. Ég ræð ekki við það að hann upplifi það að ég hafi stjórn á einhverju fólki. Ég veit bara ekkert um hvað þetta snýst,“ segir Gunnar Smári.
Gunnar Smári sendi á fólk skilaboð í aðdraganda fundar Vorstjörnunnar í gær þar sem hann lagði til stuðning við Vorstjörnuna, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og að verja Samstöðina.
„Ég hvatti til þess að Samstöðin yrði varin því Sósíalistaflokkurinn hafði yfirtekið húsnæðið og þeirra hegðun gagnvart öðrum leigjendum gerði það að verkum að það var full ástæða til að efast um að Samstöðin gæti starfað þarna í skjóli þessara manna,“ segir Gunnar Smári og bætir við: „Því í Sósíalistaflokknum núna er talað um Gunnar Smára sem helsta andstæðing flokksins en ekki auðvaldið,“ segir Gunnar Smári.
Þannig að þú þekkir engin deili af svokölluðum sáttafundi um framtíð Samstöðvarinnar?
„Það er eitthvað á milli Vorstjörnunnar og Sósíalistaflokksins sem ég tengist ekki. Samstöðin leigir af Vorstjörnunni,“ segir Gunnar Smári.
Að sögn Gunnars nemur framlag Sósíalistaflokksins til Samstöðvarinnar um 15% af heildartekjum fjölmiðilsins. Annað kemur frá áskrifendum, auglýsingum og fjölmiðlastyrkjum. Hann telur því rekstargrundvöll stöðvarinnar tryggan þó að framlagið frá Sósíalistaflokki hverfi.
Gárungarnir velta því upp hvort nýtt stjórnmálaafl sé í deiglunni í ljósi þess að nýir einstaklingar hafa tekið við stjórn Sósíalistaflokksins og aðrir horfið frá. Spurður um það svarar Gunnar Smári því hugsi að hann telji frjóan jarðveg fyrir slíkt.
„Á aðalfundi Vorstjörnunnar samþykktu nær allir þær breytingar sem Sanna Magdalena lagði til,“ segir Gunnar Smári, en Sanna sagði í samtali við mbl.is í fyrradag að hún íhugaði stöðu sína í Sósalistum.
„Það finnst mér benda til þess að ný stjórn í Sósíalistaflokknum hafi engan stuðning í flokknum. Þetta held ég hljóti að kalla á það að hin nýja forysta mæti flokksmönnum og segi hvað hún ætlar sér, þannig að flokksmenn geti tekið afstöðu til þess hvert flokkurinn er að fara,“ segir Gunnar Smári.
Burt séð frá því segir hann að helstu tíðindin úr þessu umróti öllu saman í kringum Sósíalista vera þau að fólk sem áður aðhylltist fyrri stjórn flokksins, Vinstri græn, Píratar og jafnvel Samfylkingarfólk sé að ræða saman um að stofna „nýjan stjórnmálavettvang.“
„Ég held að fólk sé að ræða saman fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Um tiltekin málefni sem einfalt er að sammælast um. Ekki mál sem geta klofið fólk á borð við utanríkismál, NATO og Evrópusambandið. Ekki að það séu hættuleg mál en það vill svo til að í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga þarftu ekki að taka afstöðu til mála sem skiptar skoðanir eru um. Ég held að þessi staða sem upp er komin í íslenskum stjórnmálum hafi aukið mjög matarlyst pólitískra áhugamanna sem geta hugsað sér að taka þátt í stjórnmálastarfi. Fólk sem gat ekki hugsað sér að starfa með núverandi stjórn Sósíalistaflokks, í VG sem er í sárum eða Pírötum sem eru svolítið veglausir. Ég held að það séu skemmtilegir tímar fyrir félagshyggjufólk fram undan.“
Hyggst þú fara í framboð?
„Nei, ég hyggst einbeita mér að Samstöðinni, en ég hef auðvitað áhuga á því að til verði öflugur félagshyggjuflokkur sem getur boðið fram í næstu sveitastjórnarkosningum.“
Telur þú þetta góðan möguleika?
„Já, mér sýnist mjög líklegt að þetta sé að fara að gerast. Svona sem stjórnmálaskýrandi,“ segir Gunnar Smári.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.