Líf Magneudóttir, formaður borgarráðs og oddviti Vinstri grænna, vísar gagnrýni á ákvörðun meirihluta borgarráðs þess efnis að samþykkja að fáni Palestínu fái að blakta við ráðhús Reykjavíkur á bug. Hún sakar minnihlutann í Reykjavík jafnframt um lýðskrum.
Ákvörðunin um að fáni Palestínu yrði dreginn að húni við ráðhúsið var tekin á aukafundi borgarráðs í morgun. Fáni Úkraínu hefur einnig blaktað við ráðhúsið frá upphafi stríðsins í Úkraínu en íslenski fáninn er almennt ekki dreginn að húni við ráðhúsið.
Ákvörðun meirihlutans í borgarráði hefur verið harðlega gagnrýnd af minnihlutanum. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, hefur meðal annars sagst furða sig á óðagotinu sem hlaupið sé í vinstri flokkana og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja óábyrgt af meirihluta borgarstjórnar að taka afstöðu í viðkvæmum deilum erlendra ríkja.
„Við í meirihlutanum ræddum þetta og komust að þeirri niðurstöðu að við vildum gera þetta en þessi tillaga hefur legið fyrir borgarráði í nær tvö ár. Mér finnst þetta vera lýðskrum hjá minnihlutanum, það er ekkert óðagot og fundarsköp hafa ekkert verið brotin. Þetta er allt eftir bókinni og ég bara blæs á þessa gagnrýni,“ segir Líf í samtali við mbl.is.
Líf gagnrýnir einnig fyrri meirihluta í borginni, sem sprakk í febrúar síðastliðnum, fyrir það að hafa ekki flaggað fánanum í stjórnartíð sinni.
Áhættumat var gert í aðdraganda þess að ákveðið var að draga fánann að húni við ráðhúsið. Áhættumatið fólst meðal annars í því að sögn Lífar að gerð öryggisathugun þar sem meðal annars var fengið álit frá ríkislögreglustjóra og utanríkisráðuneytinu.
Niðurstaða áhættumatsins sem gert var vegna málsins sýndi fram á að nauðsynlegt væri að grípa til mótvægisaðgerða vegna aukinnar áhættu sem fælist í því að draga fánann að húni, þó áhættan væri í lægsta þrepi. Meðal annars hafa verklagsreglur vegna hótana í garð borgarfulltrúa verið uppfærðar.
Líf segist ekki hafa áhyggjur af því að flöggun fánans komi til með að ógna kjörnum fulltrúum eða tölvukerfum borgarinnar.
„Ég hef bara alls ekki áhyggjur af því enda finnst mér ekki áhyggjuefni að standa með fólki sem hefur þurft að þola hörmungar og brot á mannréttindum sínum. Þetta er ánægjulegt en ekki ógnvænlegt og með þessu erum við ekki að taka stöðu gegn Ísrael heldur erum við bara að standa með almenningi í Palestínu,“ segir Líf að lokum.