Kjörís segir upp leigusamningi – framtíðin óviss

Álnavörubúðin leitar nú að nýju húsnæði í Hveragerði.
Álnavörubúðin leitar nú að nýju húsnæði í Hveragerði. Ljósmynd/Aðsend

Kjörís hefur sagt upp leigusamningi sínum við Álnavörubúðina sem starfað hefur í Hveragerði í 38 ár.

Dóróthea Gunnarsdóttir, eigandi Álnavörubúðarinnar, segir stöðuna sorglega og framtíð verslunarinnar í óvissu.

Ekki liggur fyrir hvernig Kjörís mun nýta húsnæðið að sögn Valdimars Hafsteinssonar, framkvæmdastjóra Kjöríss.

 Framtíðin óviss

„Það var verið að segja okkur upp húsnæðinu núna fyrr í dag,“ segir Dóróthea og bætir því við að það sé alls ekki víst að verslunin fái húsnæði af þessari stærðargráðu til leigu í Hveragerði.

Því eru blikur á lofti um framtíð verslunarinnar sem starfað hefur í Hveragerði í 38 ár. Sjálf hefur Dóróthea rekið verslunina síðan 2007.

Standi ekki til að flytja reksturinn

Hún segir ekki standa til að færa reksturinn til annars bæjarfélags.

„Ég hef ekki áhuga á að fara með búðina á Selfoss eða til Reykjavíkur eða neitt slíkt. Hveragerði er heillandi bær og hér fæst allt til alls, nema kannski álnavaran,“ segir hún.

Framtíð húsnæðisins óákveðin

Dóróthea segist ekki vita hvað Kjörís ætli sér að nýta húsnæðið í, en það gæti þó verið vísbending að húsnæði sem hún sagði upp fyrir rúmu ári síðan standi nú til að verði að ísbúð.

Valdimar Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Kjörís, segir ástæðu uppsagnarinnar þá að húsnæðið sé að fara í aðra notkun. Þó liggi ekki fyrir hver sú notkun verði. 

Valdimar segir að húsnæðið muni fara í aðra notkun.
Valdimar segir að húsnæðið muni fara í aðra notkun. Ljósmynd/Aðsend

„Það þarf að fara í miklar og kostnaðarsamar endurbætur við þetta húsnæði, það er búið að vera í viðhaldsþörf. Í kjölfarið þarf síðan að endurskoða leigusamninga og notkun á húsnæðinu,“ segir hann.

Ólíklegt sé þó að leigusamningur við Álnavörubúðina verði endurnýjaður.

„Þetta er sorglegt, en vonandi kemur eitthvað gott húsnæði fram, til sölu eða til leigu,“ segir Dóróthea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert