Áform eru uppi um að reisa sorporkustöð á athafnasvæði Sorpstöðvar Rangárvallasýslu á landi Strandar í Rangárþingi ytra. Stöðin kemur til með að brenna úrgang í ákveðnum sorpflokkum sem ekki er hægt að farga öðruvísi.
Varminn sem fæst með brennslunni verður svo nýttur til að efla hitaveituna á nærliggjandi svæðum. Matsáætlun til kynningar var birt á miðvikudaginn og er hægt að senda inn umsagnir til 29. júlí.
Tilgangur sorporkuversins er að minnka urðun úrgangs í samræmi við reglugerð nr. 803/2023 en markmið reglugerðarinnar er að innan ársins 2035 verði aðeins 10% heimilisúrgangs urðuð. Með sorporkuverinu geta sveitarfélögin náð því markmiði níu árum á undan áætlun.
Vonir eru bundnar við að sorporkuverið dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að breyta úrgangi í orku. Sorporkuverið getur því minnkað flutning úrgangs til erlendra brennslustöðva og dregið þannig úr mengun og kostnaði.
Samkvæmt umhverfismati hefur framkvæmdin lítil áhrif á umhverfið en helstu áhrifavaldar eru þó reykhreinsun, botnaska, flugaska, lykt, hávaði og sjónræn áhrif. Losun sorporkuversins er undir viðmiðunarmörkum Evrópusambandsins samkvæmt mælingum.
Sorporkuverið tekur við blönduðum og grófum úrgangi og ekki verður tekið við úrgangi sem hentar venjulegri endurvinnslu.
Sorporkuverið er byggt úr einingum frá finnska fyrirtækinu Ferroplan Oy og henta einingarnar einstaklega vel litlum sveitarfélögum. Sorporkuverið er því færanlegt og auðvelt er að taka það niður og flytja ef þörf krefur.
Verkefnið er hluti af stærri stefnu sveitarfélaganna Ásahrepps og Rangárþings ytra og eystra um sjálfbærni og loftslagsmarkmið en sorporkuverið ýtir undir hringrásarhagkerfi og samnýtingu auðlinda.
Sigurður Ásbjörnsson hjá Skipulagsstofnun segir það alltaf sorglegt þegar brenna þurfi sorp en sorporkuverið sé skref í jákvæðari átt.
„Við fáum nytjamuni til okkar sem þurfti mikla orku til að búa til og svo er þeim kastað á bálið, það er mjög sorglegt. Stundum er það þó nauðsynlegt þegar verið er að vinna með hættulegan og sóttmengaðan úrgang, þá er ekkert annað í stöðunni. Það er því mjög jákvætt ef það er hægt að brenna úrgang og búa þar með til orku annars staðar,“ segir Sigurður í samtali við Morgunblaðið.
Sigurður segir Skipulagsstofnun bíða eftir umsögnum um matsáætlunina. Skoða þurfi öll atriði vel og sérstaklega áhrifin sem sorporkuverið geti haft á umhverfið. Í kjölfar umsagna vinnur Skipulagsstofnun úr þeim og í kjölfarið er tekin saman umhverfismatsskýrsla. Áætlað er að matsferlið klárist í byrjun næsta árs og framkvæmdir hefjist stuttu síðar.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
