Mikið líf hefur verið á Skarfabakka Sundahafnar í Reykjavík í dag en þrjú skemmtiferðaskip lögðust að bryggju í nótt.
Viking Mars með tæplega eitt þúsund farþega og tæplega 500 manna áhöfn, Arcadia með tæplega tvö þúsund farþega og nærri 900 manna áhöfn og Norwegian Prima með vel yfir þrjú þúsund farþega og um 1.500 manna áhöfn.
Í dag fóru fram farþegaskipti á bæði Viking Mars og Norwegian Prima þar sem allir farþegar fóru frá borði og fljúga svo til síns heima frá Keflavík á meðan aðrir flugu til Keflavíkur og gengu um borð í dag - alls vel yfir átta þúsund manns. Auk þess komu tæplega tvö þúsund farþegar Arcadia til landsins og til innritunar á Skarfabakka.
Slíkum fólksfjölda fylgdu þá stórar rútur og strætisvagnar, minni langferðabílar og leigubílar. Stanslaus umferð var á svæðinu. Skipin höfðu öll haldið úr höfn um sexleytið í kvöld. Álagið er svolítið ójafnt á Skarfabakka en á morgun verður þar ekkert að gera.
Blaðamaður og ljósmyndari mbl.is voru á Skarfabakka í dag og ræddu meðal annars við Gunnar Tryggvason, hafnarstjóra Faxaflóahafna.
Gunnar segir daginn hafa verið mjög annasaman og fólk verið að koma og fara frá Skarfabakka í allan dag. Hann segir flesta hafa verið farna frá borði um tíuleytið en í kringum hádegi hafi innritun hafist á nýjum farþegum.
„Skipafélagið vill hafa jafnt streymi. Þetta er líka aðeins öðruvísi en í flugstöð þar sem þú vilt ekki fara strax um borð. Þegar þú kemur hingað sem farþegi þá viltu ekkert stoppa í farþegamiðstöðinni, þú vilt bara fara um borð af því að skipið er svo aðlaðandi.“
Gunnar segir Faxaflóahafnir leggja áherslu á þessi farþegaskipti.
„Við hugsum eingöngu um að koma fólkinu örugglega í gegn og uppfylla lög og reglur um landamæraeftirlit og vopnaleit og þess háttar. Við búum að því hversu góður og vel tengdur Keflavíkurflugvöllur er. Farþegaskipti virka mjög vel hér.
Aðrar hafnir sem eru í samkeppni við okkur vilja fá farþegaskipti því það er meira upp úr því að hafa og þar hefur þetta vel tengdur flugvöllur komið sér vel fyrir okkur.“
Gunnar segir vertíðina í raun ekki hefjast fyrr en í lok apríl en stök skip geti komið fyrr.
„Það er til dæmis bresk útgerð sem hefur stundum selt norðurljósaferðir og mætir þá bæði langfyrst og fer svo langsíðust, ekki fyrr en í október, til þess að ná norðurljósunum. Svo koma líka skip sem kannski er verið að færa á milli Evrópu og Asíu og bjóða þá upp á ferðir mjög snemma á sumrin.“
88 skip sigla til og frá Reykjavík á vertíðinni í sumar í 236 heimsóknum hingað til lands. Farþegar verða alls tæplega 265 þúsund talsins og alls skipa áhafnir yfir 118 þúsund manns.
Um 20% samdráttur hefur verið á milli ára að sögn Gunnars, sem líklega tengist breytingum á skattaumhverfinu.
„Við gerum ráð fyrir að tapa tekjum sem nema um 300 milljónum króna á ári. Þó get ég sagt að nú gaf ráðherrann út yfirlýsingu um að þessar breytingar væru til endurskoðunar og þá sáum strax örlitla aukningu í bókunum aftur.“
Framkvæmdir við nýja 5.700 fermetra farþegamiðstöð á Skarfabakka eru á áætlun. Þegar blaðamann og ljósmyndara mbl.is bar að garði var verið að flota gólfið á annarri hæðinni, þar sem vopnaeftirlit verður og innritun farþega. Gert er ráð fyrir að húsið verði fokhelt í ágúst og tekið í notkun næsta vor.
Sex mánuði ársins, utan vertíðar, þegar engin starfsemi verður í farþegamiðstöðinni á vegum Faxaflóahafna verður húsnæðið leigt út til veisluhalda og ýmiss konar sýninga. Verið er að ganga frá samningum við rekstraraðila þar um.
Á meðan farþegamiðstöðin er í byggingu hefur verið sett upp bráðabirgðafarþegamiðstöð í stórum tjöldum.
„Þetta verður allt miklu betra á næsta ári.“