Verður Íslandsmetið slegið?

Það er hægt að slá Íslandsmet á mörgum sviðum.
Það er hægt að slá Íslandsmet á mörgum sviðum. mbl.is/Hari

Ef umræður um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar halda áfram í 20 klukkustundir til viðbótar verður slegið Íslandsmet fyrir lengstu umræður um lagafrumvarp frá sameiningu efri og neðri deildar Alþingis árið 1991.

Samkvæmt upplýsingum frá Alþingi hafa umræður um frumvarpið þegar staðið í 127 klukkustundir, og engin merki eru um að málþóf stjórnarandstöðunnar sé á enda.

Ríkisstjórnin virðist á sama tíma ekki til í að gera neinar málamiðlanir á frumvarpinu.

Mun Þórunn leyfa þingmönnum að karpa fram eftir nóttu?

Önnur umræða um málið er á dagskrá þingsins klukkan 15 í dag. Ljóst er að metið fellur ekki í dag, en það gæti gerst seint á morgun eða á laugardag – allt eftir því hversu lengi umræðurnar standa.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, hefur að undanförnu leyft þingfundum að standa langt fram á nótt, og ef svo verður einnig í kvöld og nótt gæti metið fallið á morgun.

Miðflokkurinn á metið

Þetta er síður en svo fyrsta málþófið í Íslandssögunni, en nú eru umræður um veiðigjöldin orðnar þær þriðju lengstu frá sameiningu þingsins.

Þær nálgast nú lengd umræðna um Icesave, sem stóðu yfir í 135 klukkustundir.

Lengsta málþófið til þessa átti sér stað árið 2019, þegar þingmenn Miðflokksins töluðu gegn þriðja orkupakkanum í 147 klukkustundir samfleytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert