Vilja bjóða ferðamönnum betra næði á hálendinu

Skagfjörðsskáli í Langadal í Þórsmörk, sem rekinn er af Ferðafélagi …
Skagfjörðsskáli í Langadal í Þórsmörk, sem rekinn er af Ferðafélagi Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Hallgrímur Kristinsson, yfirmaður viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Ferðaskrifstofu Icelandia, segir það auðvitað mjög sérstakt að verið sé að bjóða lóðir sem bæði húsnæði er á og starfsemi nú þegar.

Rangárþing eystra auglýsti nýlega eftir leigutökum til að nýta lóðir innan þjóðlendumarka í Þórsmörk, Goðalandi og við Emstrur.

Bandalag íslenskra farfugla er með starfsemi í Slyppugili í Langadal í Þórsmörk og Ferðafélag Íslands er með starfsemi í bæði Húsadal og Langadal í Þórsmörk sem og í Emstrum. Þá er Ferðafélagið Útivist með starfsemi í Básum í Goðalandi.

Félögin þrjú sóttu áfram um lóðirnar en auk þeirra sótti Ferðaskrifstofa Icelandia um lóðir í Slyppugili í Langadal í Þórsmörk, Básum í Goðalandi og í Emstrum.

Vilja síður vera í húsnæði með 20 öðrum

Hallgrímur segir, í samtali við mbl.is, hugmyndir Icelandia ekki snúa að því að ýta starfsemi annarra á lóðunum til hliðar.

„Við erum ekki að tala um að henda húsunum í burtu og gera eitthvað nýtt. Ef svo ólíklega vill til að við komum þarna til greina, held ég að fyrst og fremst snúist þetta alltaf um samvinnu.“

Hallgrímur segir Icelandia hafa töluverðra hagsmuna að gæta á svæðunum. Þúsundir fari með dótturfyrirtæki Icelandia, íslenskum fjallaleiðsögumönnum, um Laugaveginn á hverju ári og félagið reki einnig hálendisrútuna.

„Við heyrum það, finnum og sjáum allt í kringum okkur að væntingar fólks eru að breytast. Það er ágætis samlíking að maður fór í útilegu með mömmu og pabba í gamla daga og þá gisti maður í tjaldi en nú fer fólk með hjólhýsi.

Við finnum það hjá okkar viðskiptavinum að fólk vill meira næði og kannski meiri þægindi og fleiri og fleiri vilja kannski síður vera í húsnæði með 20 öðrum með mismunandi táfýlu og allt það skilurðu?“

Þannig segir Hallgrímur að hugmyndir Icelandia snúi að því að hólfa hlutina betur niður og hugsanlega að byggja viðbótar smáhýsi. Hann segir verkefnið meðal annars snúast um viðbótar byggingamagn sem heimilt er á lóðunum.

Bás­ar á Goðalandi.
Bás­ar á Goðalandi. mbl.is/Árni Sæberg

Snýst ekki um að hver og einn hafi gufu og pott

„Það má byggja á flestum lóðunum aðeins meira en nú er og það er kannski þar sem við sjáum tækifæri en að sjálfsögðu í samstarfi við umsjónarmenn og eigendur þessara skála. Auðvitað hefur sú umræða ekkert farið fram við þá eigendur enda erum við ekkert komin þangað.

Ég held hins vegar að við höfum ýmislegt fram að færa og við teljum og vonum að við getum komið að því að færa þetta í áttina að þeim þörfum sem við finnum að kallað er eftir,“ segir hann.

Segir Hallgrímur mismunandi milli svæða hversu mikið sé heimilt að byggja og að sveitarfélagið hafa ákveðnar væntingar um að engu verði hleypt upp í vitleysu.

„Það hefur enginn áhuga á því að skemma þetta góða starf sem ferðafélögin eru að sinna á þessu svæði en við teljum að það sé tækifæri fyrir báða aðila ef við kæmum að borðinu. Við gætum gert þetta enn betur í nánu samstarfi við sveitarfélagið og þá sem eiga þarna húsnæði og hafa verið að gera þetta með ágætis hætti.

Þetta snýst ekki um að hver og einn hafi gufu og pott heldur meira um næði og að hjón geti verið saman og svo framvegis. Við teljum að við getum aðstoðað við að leiða þessa þróun eða komið að henni í nánu samstarfi við aðra sem koma að málinu, hvort sem það eru sveitarfélög eða ferðafélög.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert