Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026-2030 stenst enga skoðun og gera má ráð fyrir halla á fjárlögum út áratuginn.
Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í fjárlaganefnd, í samtali við Morgunblaðið.
Samkvæmt nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar er gert ráð fyrir 26 milljarða króna halla árið 2026, 1 milljarðs halla árið 2027, 2,9 milljarða afgangi árið 2028, 9,1 milljarðs afgangi árið 2029 og 20,8 milljarða afgangi árið 2030. Þegar fjármálaáætlunin var kynnt í apríl lýsti ríkisstjórnin því yfir að ríkissjóður yrði rekinn hallalaust frá árinu 2027.
Guðlaugur bendir á að áætlunin geri ekki ráð fyrir verulegum útgjöldum sem ríkisstjórnin hefur þó skuldbundið sig til. Sem dæmi nefnir hann stefnu stjórnvalda um að verja 1,5% af vergri landsframleiðslu í öryggis- og varnarmál innan tíu ára.
Dagur B. Eggertsson varaformaður fjárlaganefndar flutti í gær ræðu í þinginu þar sem hann benti á að þessi stefna krefðist útgjalda sem jafngilda um 77 milljörðum króna á ári að tíu árum liðnum. Hann viðurkenndi að áætlunin tæki ekki að fullu tillit til þessarar útgjaldaaukningar, þótt hann væri ekki sammála um að fjármálaáætlunin gerði ekki ráð fyrir neinum auknum útgjöldum til varnarmála.
Guðlaugur segir að nú séu varnir fjármagnaðar með um sjö milljörðum á ári, en til að ná markmiðinu eftir tíu ár þyrfti að bæta um sjö milljörðum við á ári. Það þýði að árið 2030 þyrfti 35 milljarða í ný útgjöld vegna varnarmála – útgjöld sem ekki er gert ráð fyrir í fjármálaáætluninni.
Að sögn Guðlaugs eru fleiri útgjöld ekki tekin með í áætluninni. Þar á meðal eru fjórir milljarðar króna á ári vegna lífeyrisfrumvarps um víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna á lífeyrissjóði.
„Það er bara augljóst að þessi áætlun er ekki rétt,“ segir Guðlaugur.
Hann kveðst aðspurður óttast að ríkisstjórnin hækki skatta enn frekar á fólk og fyrirtæki til að loka þessum halla. Það séu þá skattahækkanir umfram hækkun veiðigjalda, náttúrupassa á ferðamenn og afnám samsköttunar hjóna, þar sem gert er ráð fyrir þeim tekjum í fjármálaáætlun.
Guðlaugur segir þar að auki að áætlunin sé í trássi við lög. Samkvæmt lögum um opinber fjármál á að leggja fram fjármálastefnu eins fljótt og auðið er. Ríkisstjórnin ætlaði að leggja hana fram í febrúar, en gerði það í apríl. Lögin gera ráð fyrir að hún verði samþykkt og á grunni hennar verði unnin fjármálaáætlun. Á grunni fjármálaáætlunar verði fjárlög unnin. Aftur á móti er ekki búið að samþykkja fjármálastefnu.
„Það sem mér finnst alvarlegast í þessu er virðingarleysið gagnvart opinberum fjármunum. Þetta eru vinnubrögð sem ég veit ekki hvenær voru síðast tíðkuð – við erum að fara áratugi aftur í tímann. Við fórum í alla þessa vinnu með lög um opinber fjármál til að auka trúverðugleika, festu, gagnsæi og fyrirsjáanleika. Núna láta menn eins og þessi lög skipti engu máli,“ segir Guðlaugur.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.