Ekkert hefur verið gert í uppbyggingu nýs hofs Ásatrúarfélagsins árum saman. Hofið liggur við vinsælt útivistasvæði þar sem hjólandi og gangandi eiga reglulega leið hjá og borið hefur á því að vegfarendur furði sig á því að ekki sé gengið frá svæðinu þar sem það þykir lýti í umhverfinu.
Fyrir tveimur árum forvitnaðist mbl.is um stöðu mála, en ekkert hefur gerst síðan sú frétt var skrifuð.
Alda Vala Ásdísardóttir, staðgengill Hilmars Örn Hilmarssonar allsherjargoða sem er í veikindaleyfi, segir að verkfræðivinna sé í gangi á bak við tjöldin en engar áætlanir séu um að verkið haldi áfram fyrr en eftir um 18 mánuði.
„Við erum í sýnilegu hléi eins og er. En það er heilmikil bakvinna í gangi, verkfræðivinna og annað. Við förum ekki af stað fyrr en við getum staðið við okkar reikninga,“ segir Alda.
Helsta tekjulind Ásatrúarfélagsins er í gegnum framlag ríkisins til trúfélaga og í tilfelli Ásatrúarfélagsins nema tekjurnar um 80 milljónum króna á ári. Fram kom í máli Hilmars Þórs fyrir um tveimur árum að á þriðja hundrað milljónum hafi verið varið í grunn og uppsteypun á húsnæðinu.
Teikningar af húsnæðinu voru kynntar árið 2015 og þar má sjá að stærðarinnar hvelfingu sem reist verður ofan á húsinu. Næst á dagskrá er að reisa klædda stálgrind, sem er kostnaðarsamt að sögn Öldu.
„Hveflingin yfir sjálft hofið er heljarinnar verkefni. Við getum ekki gert hana í áföngum og látið stálgrind standa. Það hefur frestað okkur peningalega séð, þannig að við munum eiga fyrir því að fara af stað með verkið. Stálgrind og fokhelt þak þarf að fara upp í einum hluta.“
Hún segir kostnaðaráætlun ekki liggja fyrir en nú sé unnið að þeirri áætlun. Þá hafi áhrif í heimsmálum og verð á stáli m.a. sett strik í reikninginn.
Að sögn hennar hefur byggingarfulltrúi ekki gert athugasemdir við það hve langan tíma það tekur að reisa hofið. „Það er ekki verið að reka á eftir okkur. Fulltrúar borgarinnar fylgjast bara með,“ segir Alda.