Sveitarstjóri Bláskógabyggðar segir að banaslysin þrjú og eitt alvarlegt slys til viðbótar við Brúará síðustu árin ekki hafa orðið vegna mikillar áhættuhegðunar ferðamanna. Hún er ánægð með þær bráðaaðgerðir sem voru samþykktar á dögunum eftir síðasta banaslysið í byrjun júní.
Þrátt fyrir að svæðið við Brúará sé ekki formlega skilgreint sem ferðamannastaður hefur það dregið að sér fjölda ferðamanna síðustu ár, meðal annars með aðstoð samfélagsmiðla. Segja má að Brúará hafi komið sér sjálf á kortið sökum náttúrufegurðar en þar eru þrír fossar: Brúarfoss, Miðfoss og Hlauptungufoss.
Bráðaaðgerðirnar voru samþykktir eftir fundarhöld fulltrúa lögreglu, sveitarfélags Bláskógabyggðar, Ferðamálastofu, Landsbjargar, Safe Travel, Náttúruverndarstofnunar, markaðsstofu Suðurlands og landeigenda. Þær snúa meðal annars að því að bæta merkingar og upplýsingagjöf til ferðamanna á svæðinu.
„Ég er mjög ánægð með viðbrögðin og það er frábært að allir sem koma að þessu taka höndum saman og reyna að koma í veg fyrir frekari slys,” segir Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri aðspurð og nefnir að til lengri tíma þurfi hugsanlega að skoða breytingar á göngustígum og leggja göngustíga þar sem vantar, jafnvel að setja upp palla. Fyrst um sinn verða þó svæði afmörkuð með svokölluðum staura- og bandakerfum, þar sem ferðafólki er sýnt með skýrum hætti hvaða svæði eru talin hættuleg. Einnig verða björgunarlykkjur, eða svokölluð Björgvinsbelti, settar upp á mismunandi stöðum.
Verkefnið kostar um níu milljónir króna, sem koma úr vasa aðallandeigenda svæðisins að Efri-Reykjum en Ferðamálastofa tók að sér að útbúa umsókn um framlag frá ríkinu í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Verið er að leggja lokahönd á hana.
„Sveitarfélagið á ekki landið og á ekki staðinn en við viljum stuðla að því að þetta sé þokkalega öruggt og auðvitað er ekki viðunandi að það verði hvert slysið á fætur öðru,” greinir Ásta frá, sem ræddi við blaðamann á skrifstofu Bláskógabyggðar í félagsheimilinu Aratungu í Reykholti.
Hún segir álíka mörg slys hafa orðið í Reynisfjöru þegar ákveðið var að fara í heilmiklar aðgerðir þar. Nauðsynlegt sé að fá styrki til að landeigendur beri ekki allan kostnaðinn sjálfir.
Spurð nánar út í staðsetningar slysanna við Brúará síðustu ár nefnir Ásta að banaslysið í júní síðastliðnum hafi orðið við Miðfoss, banaslys hafi orðið árið 2024 við Hlauptungufoss, alvarlegt slysið hafi orðið árið 2023 við Brúarfoss og árið 2022 hafi banaslys orðið á milli Miðfoss og Hlauptungufoss. Í því tilfelli stökk maður á eftir syni sínum sem hafði fallið í ána. Föðurnum tókst að ýta syni sínum að bakkanum þar sem aðrir ferðamenn gripu hann en straumurinn tók föðurinn og bar hann niður eftir ánni, þar sem hann lést.
„Áin er svo falleg og lítur út fyrir að vera friðsæl, blá og heillandi, þannig að ég held að fólk átti sig ekki á hættunni,” segir Ásta en bendir þó á að slysin hafi ekki orðið vegna mikillar áhættuhegðunar ferðamannanna.
„Það er að athafna sig við annað án þess að vera stökkvandi á ystu brún eða eitthvað þannig. Fólk áttar sig bara ekki á hvað hún er straumhörð, köld og djúp,” bætir hún við um Brúará. Nefnir hún að eitt slysanna hafi orðið þegar ferðamaður var að skola á sér hendurnar við árbakkann.
Ásta bendir á að svæðið sé ekki síður hættulegt í snjó og hálku en tekur fram að engin umræddra slysa hafi orðið við þær aðstæður.
Landeigendur lögðu fyrir nokkrum árum veg upp að Brúarfossi, sem er efstur fossanna þriggja, og þar er stórt bílastæði fyrir ferðamenn. Áður fóru ferðamenn gangandi til að sjá fossana frá bílastæði sem er niðri við veginn.
Lítið er um skipulagðar ferðir að svæðinu en eftir að efra bílastæðið kom hefur eitthvað verið um að minni rútur fari þangað, segir Ásta.
„Þau eru búin að gera mjög mikið. Það er ekkert fyrir hvern sem er að eiga land sem verður allt í einu svona vinsælt. Þú þarft að bregðast einhvern veginn við, þú þarft að gæta að öryggismálum, þú þarft líka að hreinsa upp ruslið og snýtubréfin og allt það, þannig að það er alveg álag og þau hafa verið að tækla þetta vel,” svarar Ásta, spurð út í vinnu landeigenda í tengslum við Brúará.