Helgin sem gengin er í garð hefur lengi verið önnur stærsta umferðarhelgi ársins á Íslandi, á eftir verslunarmannahelginni, enda þótt enginn aukafrídagur fylgi henni. Nú eru á hinn bóginn margir komnir í sumarfrí úr vinnu og lausari við en ella, auk þess sem skólar eru búnir í bili.
„Fyrir vikið eru fleiri á ferðinni til að elta sólina og reyna að ná þessu góða sumri á Íslandi. Það kallar á aukna árvekni og varúð,“ segir Þórður Bogason ökukennari sem lengi hefur látið sig umferðaröryggi varða en hann starfar einnig sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður, auk þess að vera í björgunarsveit. „Því lengra sem við förum þeim mun betur þurfum við að undirbúa og skipuleggja okkur enda skerðist athyglin eftir því sem aksturinn er lengri. Að mörgu er að hyggja.“
– Hvað ber helst að varast um umferðarhelgi sem þessa?
„Við þurfum fyrst og fremst að hafa í huga að fleiri bílar eru á þjóðveginum, ekki síst í kringum þá staði sem þykja áhugaverðir. Einnig er mikilvægt að taka tillit til þess að fjöldi erlendra ferðamanna er á vegunum og eðli málsins samkvæmt þekkja þeir leiðirnar ekki eins vel og við sem hér búum. Þeir geta því átt til að stöðva bílinn skyndilega til að beygja. Annars á bara sama við um þessa helgi og aðra daga: við skulum virða hámarkshraða, sem er 90 á vegum úti, sýnum tillitssemi, verum þolinmóð og gefum okkur tíma til að ferðast saman um landið.“
Þórður hvetur fólk m.a. til að rifja upp umferðarreglur í jarðgöngum sem er að finna víða um landið. Sjá myndband hér: https://youtu.be/-VqdQHqOkVE?si=je0ZUodxTg9vpq71
– Hvernig er ástand vega um þessar mundir? Betra eða verra en verið hefur undanfarin ár?
„Það er svipað og áður, myndi ég segja. Vegirnir okkar eru sæmilegir. Þeir eru hannaðir miðað við ákveðinn hraða og mikilvægt er að virða það. Dæmin sanna því miður að illa getur farið ef of hratt er farið.“
Nánar er rætt við Þórð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.