Lentu í fjögurra tíma bið á Skarfabakka

Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Bandarískt par sem ferðaðist með skemmtiferðaskipinu Norwegian Prima, frá Englandi til Íslands, þurfti að bíða eftir fari í um fjórar klukkustundir á Skarfabakka eftir að tveggja daga skipulagðri ferð þeirra um Suðurland var aflýst á síðustu stundu.

Þau Brian og Gillian flugu frá heimalandinu til Englands og gengu um borð Norwegian Prima 22. júní fyrir 11 daga siglingu um Mið- og Norður-Evrópu.

„Við áttum að stoppa í Brussel í Belgíu en það varð ekki af því en við fórum til Amsterdam í Hollandi og þriggja hafna í Noregi,“ segir Brian er blaðamaður og ljósmyndari mbl.is rákust á þau við strætóstoppistöð á Skarfabakka á fimmtudaginn.

Gillian bætir því við að í Noregi hafi viðkomustaðirnir verið Bergen, Geiranger og Álasund.

Spes veður á Íslandi

Þá lá leið þeirra til Íslands þar sem þau stoppuðu á Akureyri og Ísafirði áður en þau komu til hafnar í Reykjavík á aðfaranótt fimmtudags.

Höfðuð þið tækifæri til að skoða ykkur um á Íslandi?

„Já, við fórum gullna hringinn í gær og sáum meðal annars Geysi og fallega fossa. Það var mjög gaman,“ segja þau og bæta því við að frábært hafi verið að heimsækja Bláa lónið. „Við nutum þess mjög,“ segir Brian.

Honum þykir veðrið á Íslandi þó skrítið. Eina stundina hafi honum verið ískalt en aðra hafi hann þurft að fara úr jakkanum sökum hita. Þá hafi rignt og stytt upp á víxl.

„Þetta var mjög spes,“ segir Brian og hlær.

Óheppni dagsins

Til stóð hjá parinu að hefja tveggja daga skipulagða ferð um Suðurlandið á fimmtudaginn en á síðustu stundu var ferðinni aflýst.

„Það er óheppni dagsins. Þess vegna erum við enn að leita að fari. Við höfum staðið hér síðan hálfátta í morgun. 

Leiðsögumaðurinn okkar er að reyna að hjálpa okkur að finna gistingu í nótt en við erum með gistingu fyrir næstu nótt,“ segir Gillian.

Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Vant siglingafólk

Parið er ekki óvant þessum ferðamáta en þau voru að ljúka sinni þriðju för með Norwegian skipi, síðast ferðuðust þau í haust með skipi frá skipafélaginu frá Bandaríkjunum til Alaska. Þá segjast þau hafa farið í ferðir á vegum bæði Carnival Cruise og Royal Carribean.

Í Norwegian Prima segja þau að farþegar séu langflestir frá Bandaríkjunum, líklega 70-75% þeirra. Þau segja alltaf jafn gaman að ferðast með skemmtiferðaskipum og segja þau raunar mjög ólík. Það geti verið mikill stærðarmunur og munur á þjónustuframboði eftir því. 

Norwegian Prima er nokkuð stórt, 300 metrar á lengd og 40 metrar á breidd. Skipið getur flutt 3.215 farþega og áhafnarmeðlimir eru yfir 1.500 talsins.

Dekkin eru 16 auk fjögurra sem ekki eru aðgengileg farþegum. Þannig má segja að skipið telji nærri 200 þúsund fermetra. Það jafngildir rúmlega þremur Smáralindum.

Skemmtiferðaskipið Norwegian Prima.
Skemmtiferðaskipið Norwegian Prima. Ljósmynd/Norwegian Cruise Line
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert