Þriggja leitað vegna stunguárásar

Sérsveitin tók þátt í aðgerðunum.
Sérsveitin tók þátt í aðgerðunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan leitar þriggja aðila sem veittust að einum og stungu hann í aftanvert læri í miðbæ Reykjavíkur í dag.

„Það náðist ágætis lýsing á þeim og það er verið að vinna í því að hafa uppi á þeim,“ sagði Árni Friðleifsson aðalvarðstjóri í samtali við mbl.is.

Eins og mbl.is greindi fyrst frá þá var stunguárás á fjórða tímanum í Fógetagarðinum við Aðalstræti.

Sá sem var stunginn „bara brattur“

Hann kveðst ekki geta veitt upplýsingar um það hvort einhverjir liggi undir gruni og hvort um góðkunningja lögreglunnar sé að ræða. „Þetta er bara allt í rannsókn,“ segir hann.

Veistu hvernig líðan er hjá þessum sem var stunginn?

„Já, mér skilst að hann sé bara brattur. Þetta var ekki djúp stunga og þannig séð ekki alvarleg,“ segir Árni.

Aðilinn sem var stunginn var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Árásin varð við Aðalstræti á fjórða tímanum í dag og var bæði lögregla og sérsveit ríkislögreglustjóra með viðbragð á vettvangi.

Árásin átti sér stað í Fógetagarðinum.
Árásin átti sér stað í Fógetagarðinum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert