Þingflokksformenn sitja enn við samningaborðið og reyna að finna leiðir til að ná samningum um þinglok. Veiðigjaldafrumvarpið er ekki á dagskrá þingsins í dag og stjórnarandstaðan hefur óskað eftir því að málinu verði frestað fram á haust.
Þetta segir Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar, í samtali við mbl.is.
Hún segir umræðurnar fikrast áfram þó að það sé ómögulegt að segja til um hversu langt sé í land.
Veiðigjöldin eru ekki á dagskrá þingsins í dag, heldurðu að þau komi aftur á dagskrá?
„Nú er dagskrárvaldið í höndum forseta og á meðan við sitjum við samningaborðið og það er samningsvilji til að ná niðurstöðu, og við erum bjartsýn að það takist, að þá er þetta liður í því að láta þinghald halda áfram,“ segir Ingibjörg.
Hún segir þó ómögulegt að segja til um það hvort þau komi aftur á dagskrá. Hún segir málinu enn sem komið er ekki hafa verið frestað til næsta þings.
„Við höfum óskað eftir því í stjórnarandstöðunni og teljum að það sé skynsamlegt að vinna málið betur og koma með það aftur en það hefur ekki verið gert,“ segir hún.
Ingibjörg segir þó að veiðigjöldin hafi verið tekin af dagskrá öðru hverju til þess að greiða atkvæði og klára önnur mál.