Frá klukkan átta annað kvöld og til klukkan sjö á þriðjudagsmorgun verður hringveginum lokað í báðar áttir á milli Rauðavatns og gatnamóta við Nesjavallaleið vegna fræsingar.
Kaflinn er um 1.500 metra langur og hjáleið verður um Hafravatnsveg.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Colas Ísland.
Þá verður Miklubraut ýmist lokað að hluta eða hún þrengd niður í eina akrein vegna malbikunarframkvæmda.
Framkvæmdir á Miklubraut við Skaftahlíð munu standa frá klukkan sjö annað kvöld til klukkan eitt aðfaranótt þriðjudags. Kaflinn er um 520 metra langur og liggur beggja vegna við gatnamótin að Stakkahlíð. Gatnamótin við Stakkahlíð verða því lokuð í báðar áttir og Miklabraut þrengd niður í eina akrein.
Framkvæmdir á Miklubraut við Klambratún munu standa frá klukkan ellefu annað kvöld til klukkan fjögur aðfaranótt þriðjudags. Kaflinn er um 290 metra langur og verður Miklubraut lokað til vesturs við Lönguhlíð.
Framkvæmdir við N1 Hringbraut munu standa frá klukkan tvö aðfaranótt þriðjudags til klukkan sex á þriðjudagsmorgni. Kaflinn er um 160 metra langur. Beygjureinin verður lokuð á meðan á framkvæmdum stendur og þrengt verður um eina akrein á Hringbraut fram hjá vegkaflanum.
Vegfarendur eru beðnir að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæði á ákveðnum stöðum í Reykjavík. Menn og tæki verða við vinnu mjög nálægt akstursbrautum og vinnusvæðin verða þröng, að því er segir í tilkynningunni.
Framkvæmdir sem þessar eru nú sem endranær háðar veðri.