Málið endurflutt: Rétturinn vill frekari skýringar

Neytendasamtökin hafa staðið fyrir dómsmálunum vegna skilmála fasteignalána með breytilega …
Neytendasamtökin hafa staðið fyrir dómsmálunum vegna skilmála fasteignalána með breytilega vexti sem samtökin telja ólögmæta. Tugir milljarða eru undir í málinu.Hér sést Breki Karlsson, formaður samtakanna, eftir að dómur féll í héraðsdómi fyrir tveimur árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vaxtamálið svokallaða verður endurflutt í Hæstarétti í haust, en mjög óvenjulegt er að slíkt sé gert. Var málið flutt í byrjun maí en dómur var ekki kveðinn upp í málinu heldur óskaði Hæstiréttur eftir frekari afstöðu frá málsaðilum varðandi nokkra hluta málsins. Athygli vekur að Hæstiréttur óskar eftir afstöðu um nokkur lagatæknileg atriði sem flest virðast miða að því hvað gert sé fallist Hæstiréttur á að dæma breytilegu óverðtryggðu vextina sem deilt er um ólögmæta.

Um risastórt mál er að ræða sem gæti orðið fordæmisgefandi fyrir mikinn fjölda heimila landsins, en fram hefur komið í fréttum að áhrif af dóminum, sé hann lánveitanda algjörlega í óhag, geti hlaupið á tugum milljarða.

Málsóknir gegn þremur bönkum

For­saga máls­ins er að Neyt­enda­sam­tök­in skipu­lögðu hóp­mál­sókn árið 2021 gegn Lands­bank­an­um, Íslands­banka og Ari­on banka. Í því máli sem vísar að Íslandsbanka var bankinn sýknaður af kröfum tveggja lántakenda í Héraðsdómi Reykjaness í nóvember.

Málið varðar skil­mála viðskipta­bank­anna og fram­kvæmd lána með breyti­leg­um vöxt­um en Neyt­enda­sam­tök­in töldu það ekki stand­ast lög. Tug­ir millj­arða eru tald­ir und­ir í mál­inu og sam­bæri­leg­um mál­um.

Vaxtamálið verður endurflutt fyrir Hæstarétti í september. Mjög óvenjulegt er …
Vaxtamálið verður endurflutt fyrir Hæstarétti í september. Mjög óvenjulegt er að slíkt sé gert. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leitað til EFTA-dómstólsins 

Við mála­rekst­ur var ákveðið að leita ráðgef­andi álits EFTA-dóm­stóls­ins vegna skil­mála lán­anna, en EFTA eru Fríversl­un­ar­sam­tök Evr­ópu. Komst dóm­stóll­inn að þeirri niður­stöðu að skil­mál­ar lána með breyti­leg­um vöxt­um á Íslandi væru óskýr­ir – hinn al­menni lán­tak­andi skildi ekki þá út­reikn­inga sem vext­irn­ir byggðu á.

EFTA-dóm­stól­inn set­ti þó þann fyr­ir­vara að það sé ís­lenskra dóm­stóla að meta hvort niðurstaða EFTA sam­ræm­ist ís­lensk­um lög­um. Hafa ber í huga EES regl­ur sem inn­leidd­ar hafa verið ber að túlka í sam­ræmi við EES samn­ing­inn og í sam­ræmi við ráðgjöf EFTA-dóm­stóls­ins.

Landsbankamálið einnig í gangi

Í fyrra komst héraðsdóm­ur að þeirri niður­stöðu í máli gegn Lands­bank­an­um að bank­an­um bæri að end­ur­greiða tveim­ur lán­tak­end­um of­greidda vexti vegna láns með breyti­leg­um vöxt­um, þar sem skil­máli bank­ans var tal­inn ósam­rýman­leg­ur lög­um um neyt­andalán. Var mál­inu áfrýjað til Lands­rétt­ar sem sýknaði Landsbankann, en Hæstiréttur féllst á að taka það mál einnig fyrir.

Flutt fyrir fullskipuðum Hæstarétti

En aftur að málinu gegn Íslandsbanka sem fór beint upp í Hæstarétt. Málið var flutt 7. maí við fullskipaðan Hæstarétt, eða fyrir sjö dómara. Slíkt er aðeins gert í málum sem talin eru sérstaklega fordæmisgefandi og mikilvæg.

Tuttugu dögum síðar kvað Hæstiréttur svo upp ákvörðun í málinu en ekki dóm. Var þar vísað til heimildar í lögum um meðferð einkamála sem heimila dóminum að taka á ný fyrir mál í því skyni að fá afstöðu málsaðila til ákveðinna atriða málsins sem þá dómurinn telur væntanlega ekki hafa verið reifuð nægjanlega í málaflutningi.

Vilja vita hvað eigi að gerast séu vextirnir dæmdir ólögmætir

Í þeim fjórum atriðum sem Hæstiréttur leggur fyrir málsaðila virðist rétturinn hafa áhuga á að vita hvað þeir telji að eigi að gerast verði breytilegu vextirnir dæmdir ólögmætir.

Flækist málið meðal annars vegna þess að ekki er alveg samræmi á íslenskri dómavenju og þeirri evrópsku. Þannig hefur er heimild hér á landi og Hæstiréttur hefur áður skoðað hvort krukka eigi í skilmálum samninga sem dæmdir eru ólögmætir.

Hjá EFTA-dómstólnum hefur hins vegar verið horft til þess að ef ákveðið ákvæði sé ósanngjarnt sé það ógilt, en samningurinn getur staðið þess fyrir utan. Þetta er einmitt það sem Neytendasamtökin og lántakendurnir fara fram á. Að aldrei hafi mátt hækka vexti og því þurfi að endurgreiða þær.

Í evrópsku dómaframkvæmdinni er þó ein undantekning. Ef forsendurnar eru óframkvæmanlegar er heimilt að reikna vexti samkvæmt lægstu mögulegu vöxtum samkvæmt Seðlabankanum. Þá væru lán endurreiknuð samkvæmt því og líkist það uppgjörinu á gengislánamálinu á sínum tíma þegar gengistrygging var felld úr gildi en vextir reiknaðir samkvæmt lægstu vöxtum.

Gæti munað miklu á kostnaði

Eins og fyrr segir virðast viðbótarspurningar Hæstaréttar beinast að því hvað gera eigi ef skilmálarnir séu dæmdir ólögmætir og veltir fyrir sér þessum þremur leiðum sem þá kæmu til greina. Ljóst er að ef fallist verður á aðalkröfu Neytendasamtakanna myndi það kosta lánveitendnur tugi milljarða. Ef farið yrði í einhverskonar endurútreikninga, eða ef Hæstiréttur myndi krukka í skilmálum til að gera þá lögmæta, gæti kostnaðurinn hins vegar orðið mun lægri, en í raun ómögulegt að segja til fyrr en það væri reiknað að fullu.

Ekki skal þó útiloka heldur þann möguleika að Hæstiréttur sýkni bankann þrátt fyrir þessar aukaspurningar.

Nýr dómari inn í málið

Málið er nú komið á dagskrá Hæstaréttar 16. september og verður það þá endurflutt. Einn dómari mun koma nýr inn í málið, því eftir sumarhlé kemur Ólafur Börkur Þorvaldsson úr leyfi og tekur sæti Karls Axelssonar sem á móti fer í leyfi. Fyrir hönd lántaka mun Grétar Dór Sigurðsson flytja málið, en Áslaug Árnadóttir flytur það fyrir hönd Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert