Öryggismyndavélar í miðbæ Reykjanesbæjar

Bæjarráð segir öryggi íbúa muni verða aukið með tilkomu öryggismyndavéla.
Bæjarráð segir öryggi íbúa muni verða aukið með tilkomu öryggismyndavéla. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum á fimmtudag að setja upp öryggismyndavélar í miðbæ Reykjanesbæjar. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum fagnar tilkomu myndavélanna og segir aðgerðirnar löngu tímabærar.

Margrét Kristín Pálsdóttir, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is að öryggismyndavélar séu nauðsynlegar til að tryggja almennt öryggis- og þjónustustig í Reykjanesbæ.

„Myndefni getur nýst bæði vegna sakamála en ekki síður vegna almennra öryggissjónarmiða.“

Margrét Kristín Pálsdóttir segir tilkomu myndavélanna löngu tímabæra.
Margrét Kristín Pálsdóttir segir tilkomu myndavélanna löngu tímabæra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Kostnaður um 2,5 milljónir króna

Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að áætlaður heildarkostnaður við öryggismyndavélarnar sé um 2,5 milljónir króna.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum mun fjármagna kaup á búnaðinum, en Reykjanesbær sér um uppsetningu, viðhald og þrif.

Að sögn Margrétar er unnið hörðum höndum að uppsetningu myndavélanna, en ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær þær verða komnar í gagnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert