„404 – Síðan sem þú leitaðir að fannst því miður ekki“

Ríkisstjórnin ætlaði vera með mælaborð árangurs í tengslum við fjármálaáætlunina, …
Ríkisstjórnin ætlaði vera með mælaborð árangurs í tengslum við fjármálaáætlunina, en þegar farið er á síðuna til að skoða markmið og mælikvarða þá kemur upp að síðan sé ekki til. Samsett mynd/mbl.is/Óttar/Skjáskot/Stjórnarráðið

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fjögurra ára harðlega í pontu Alþingis á dögunum. Hún sagði áætlunina skorta bæði trúverðugleika og byggja á óraunhæfum forsendum. 

Hún vísaði til álits fjármálaráðs sem hefur lýst því yfir að svartsýn sviðsmynd við þær aðstæður sem nú eru í efnahagslífinu og heiminum öllum séu líklegri en þær bjartsýnu forsendur sem ríkisstjórnin byggir fjármálaáætlun sína á.

Í ræðunni á föstudaginn gagnrýndi hún einnig að ekki væri gert ráð fyrir niðurgreiðslu skulda þrátt fyrir að fjallað sé um það.

Hún fjallar um það að í áætluninni standi að gera þurfi ráð fyrir því að ytri áföll geti átt sér stað og svigrúm þurfi að vera til þess að geta brugðist við þeim.

„Það er hins vegar ekki staf að finna um forgangsröðun fjármuna til niðurgreiðslu skulda. Svigrúm til aukinnar skuldsetningar hefur skipt sköpum til að takast á við áföll fortíðar. Það vekur því upp spurningar um hvers vegna ekki er lögð áhersla á niðurgreiðslu skulda og að skuldalækkunarreglu sé kippt úr sambandi fyrir verri kost, marklausa greinargerð í stað lögbundinnar lækkunar,“ sagði Guðrún.

Gagnrýnir mætingu stjórnarliða í þingsal

Guðrún bæði byrjar ræðu sína og endar á því að gagnrýna mætingu stjórnarliða og ábyrgðaraðila áætlunarinnar

„Hvað horfi ég upp á í þessum sal í dag? Örfáa þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og maður hefði haldið að hér myndu þeir sitja og taka þátt í umræðum um sína fyrstu fjármálaáætlun,“ sagði hún og bætti við:

„En hvað skyldi valda fjarveru þeirra í  þessum sal? Kom kannski í ljós að fögur fyrirheit og loforð í kosningabaráttunni væru innantóm? Þessi fjarvera dregur verulega úr trúverðugleika fjármálaáætlunar.“

Hún endaði ræðu sína á að gagnrýna mætinguna enn frekar.

„Hér er ekki hæstvirtur fjármálaráðherra, hér er ekki háttvirtur formaður fjárlaganefndar og hér er ekki háttvirtur framsögumaður málsins,“ sagði Guðrún. Hún hvatti í framhaldinu bæði ríkisstjórnina og meirihlutann til þess að mæta og taka þátt í umræðum um áætlunina. 

Guðrún Hafsteinsdóttir gagnrýndi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar harðlega á dögunum.
Guðrún Hafsteinsdóttir gagnrýndi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar harðlega á dögunum. mbl.is/Karítas

Síðan finnst ekki

Guðrún sagði ríkissstjórnina hafa farið með fögur fyrirheit um hagræðingar í fjármálaáætluninni en að útfærsla þeirra sé ekki tekin fram í áætluninni sjálfri. 

„Það voru fögur fyrirheit um hagræðingar, aðhald sem ekki er útfært þrátt fyrir mikla flugeldasýningu í fjölmiðlum um hagræðingar á fyrstu metrunum. Yfir tímabil fjármálaáætlunar eru 107 milljarðar í óútfært aðhald, þrátt fyrir yfirlýsingar um það á blaðsíðu 23 að í þessari fjármálaáætlun sé ekkert óútfært aðhald,“ sagði hún.

Hún fjallaði einnig um mælaborð árangurs sem ríkisstjórnin ætlaði að hafa aðgengilegt á vef Stjórnarráðsins, en á mælaborðinu stendur til að birta markmið og mælikvarða fyrir málaflokka fyrir tímabil fjármálaáætlunarinnar.

„Það er nú áhugavert að fara inn á vef Stjórnarráðsins og finna þetta mælaborð árangurs. Í mælaborðinu stendur til að birta markmið og mælikvarða málaflokka fyrir tímabil fjármálaáætlunar 2026–2030. Þegar smellt er á það núna í dag, þann 4. júlí, stendur, með leyfi forseta: „404 – Síðan sem þú leitaðir að fannst því miður ekki“.“

Hún bætti svo við:

„Við skulum vona að þetta sé bara tæknilegs eðlis frekar en að gögnin liggi ekki enn þá fyrir. En það er fátt sem bendir til þess að hér sé um tæknivillu að ræða.“

Ef reynt er að skoða markmið og árangur í hinu …
Ef reynt er að skoða markmið og árangur í hinu svokallaða mælaborði árangurs kemur þetta upp. Skjáskot/Stjórnarráðið

Skortir framtíðarsýn

Í lok ræðunnar gagnrýndi Guðrún ríkisstjórnina og áherslu hennar á skattheimtu í stað verðmætasköpunar. 

„Við sjáum boðaðar skattahækkanir á ferðaþjónustu, á sjávarútveg, á fiskeldi, hækkuð kolefnisgjöld, óskilvirkt kílómetragjald, samsköttun hjóna og svo mætti lengi telja.“

„Það sem hins vegar vantar er skýr stefna um hvernig efla eigi vaxtargetu hagkerfisins. Hvernig eigi að hvetja áfram til nýsköpunar, auka framleiðni og skapa raunveruleg verðmæti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert