Fyrsta rannsóknarholan lofar góðu

Horft yfir Kleifarvatn, Sveifluháls er vinstra megin á myndinni.
Horft yfir Kleifarvatn, Sveifluháls er vinstra megin á myndinni. mbl.is/RAX

Axel Viðarsson, yfirverkefnisstjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku, segir að fyrsta djúpa rannsóknarholan lofi góðu en borun fyrstu rannsóknarholunnar á jarðvarmasvæðinu við Sveifluháls í Krýsuvík er nú lokið.

Spurður hvort það hafi áhrif að bora nálægt nýlegu jarðhræringasvæði segir hann þau vön að vinna svona framkvæmdir á slíku svæði.

„Við erum náttúrulega vön að vera í kringum slíkt enda eru öll jarðvarmaorkuver staðsett á beltinu þar sem að slíkt getur gerst, við erum bara nýlega búin að lenda í að eitthvað svona gerist, eins og við upplifðum núna í Svartsengi,“ segir Axel.

Jafn mikil áhætta hér og þar

Hann segir að ef horft sé á þetta út frá heita vatninu þá séum við bara að fá það frá einni átt, frá Hellisheiði og Nesjavöllum og það séu einnig svæði þar sem jafn mikil áhætta ríki eins og í Krýsuvík, Svartsengi eða á Reykjanesi.

Ekki er hægt að segja til á þessari stundu hve heitt vatnið sé eða hvort það sé nógu og mikil orka til að nýta í rafmagnsframleiðslu.

„Við vitum það ekki alveg strax, en nú er búið að bora í fyrsta skipti á þessu svæði, það hefur verið borað á Krýsuvíkursvæðinu í gegnum tíðina, en þetta er fyrsta djúpa rannsóknarholan þarna við sveifluhálsinn og hún lofar góðu.“

Ekki vitað hvort það dugi í rafmagnsframleiðslu

Hann segir þó að ein hola sé ekki nóg til þess að staðfesta hvað sé þarna niðri.

„Við þurfum örugglega tvær til þrjár holur til að staðfesta hvað sé þarna niðri, en það er mjög líklegt, ef það finnst heitt vatn, að þá sé þetta mjög ákjósanlegt til að ná í frekara heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið, við vitum ekki hvort þetta sé nægilegur hiti til að fara í rafmagnsframleiðslu líka.“

Axel segir það klárt mál að ef að nógu og öflugt vatn finnist verði líka farið í rafmagnsframleiðslu.

Ekki er vitað hve heitt vatnið er en Axel segir það mjög líklegt að það sé nægilega heitt til þess að veita vatni til höfuðborgarsvæðisins.

„Við vitum að við erum komin á heitan stað, við vitum að bergið er dálítið brotið en við vitum eiginlega ekki hversu heitt það er og hversu mikið vatn er á ferð í jörðinni, það tekur alltaf tíma að fá þær niðurstöður.“

Munu vanda til verka

„Við áttum okkur alveg á því að við erum á nýju jarðhitasvæði sem er líka þekktur ferðamannastaður og við ætlum heldur betur að vanda til verka“ segir Axel, en það getur tekið allt upp undir ár fyrir slíkar holur til að hitna almennilega og sýna hvað í þeim býr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka