„Mér finnst alveg með ólíkindum að vera á fundi í utanríkismálanefnd, með utanríkisráðherra, fyrir nokkrum dögum, þar sem eina umræðuefnið var heimsókn Ursulu von der Leyen [forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins] til landsins og það er ekki minnst einu orði á þetta gríðarstóra mál,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið um nýja verndartolla ESB á kísiljárn og aðrar skyldar vörur frá Íslandi og öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
Segir þingmaðurinn það skjóta skökku við að utanríkisráðherra og forsætisráðherra snúi hverjum steini í leit að leiðum til að koma Íslandi inn í ESB í stað þess að gæta hagsmuna Íslands „í þessu gríðarstóra hagsmunamáli fyrir íslenskan iðnað“.
Guðlaugur kveður það klárt mál að ef ESB segist vera Íslandi hliðhollt leggi það ekki slíka tolla á íslenskt járnblendi. „Þessi forgangsröðun er forkastanleg, bæði þegar maður heyrir frásagnir af fundum í utanríkismálanefnd og situr þá, þar er ekki minnst einu orði á þetta mál sem haft getur gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskan iðnað. Maður spyr sig á hvaða vegferð þessi ríkisstjórn sé og hver utanríkisstefna hennar sé – hún er augljóslega ekki að gæta íslenskra hagsmuna,“ segir þingmaðurinn ómyrkur í máli.
Aðspurður segir Guðlaugur landbúnað og sjávarútveg löngum hafa staðið utan við fjórfrelsi Evrópusamstarfsins. „Um það hefur verið samið sérstaklega, en við höfum gengið að fullu frelsi með iðnaðarvörur og nú er það svo að menn eru mikið að líta til þess að vestræn ríki geti haft aðgang að málmum og öðru slíku. Við erum í þeirri stöðu í Evrópu að það er mjög lítið eftir í framleiðslu þessara málma og það er algjörlega óskiljanlegt af hverju ESB er að fara í þessa vegferð,“ segir hann.
Nýir tollar – þvert ofan í meinta góðvild ESB gagnvart Íslandi, sem Guðlaugur segir hafa mátt lesa út úr nýafstöðnum fundi og heimsókn forseta framkvæmdastjórnarinnar – muni reynast íslenskum iðnfyrirtækjum þrándur í götu.
„Mikilvægi járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga verður seint ofmetið,“ segir Guðlaugur þegar talið berst að einstökum fyrirtækjum, „en það skiptir líka máli fyrir öryggismál í álfunni að þessi framleiðsla sé hér, að við séum ekki háð því að flytja þurfi járnblendi og aðra málma annars staðar frá til Evrópu – og hér er ekki bara um að ræða járnblendi því hingað þyrfti þá líka að flytja ál,“ heldur hann áfram áður en hann kemur að því sem hann telur þungamiðju málsins:
„Stóra málið er hvernig hægt var að halda heilan fund í utanríkismálanefnd Alþingis þar sem eina umræðuefnið var þessi samskipti og þessi heimsókn von der Leyen. Þar var ekki minnst einu orði á þetta. Er það svo að utanríkisráðherra og forsætisráðherra tóku þetta ekki upp á fundi, fórum við ekki fram á það að við yrðum áfram tollfrjáls. Ef ráðherrarnir tóku það upp, hvers vegna leyndu þeir þá þing og þjóð því, þetta er í fjölmiðlum í Noregi, við fréttum af þessu þar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson að lokum.
Norska dagblaðið VG sló málinu upp á forsíðu vefmiðils síns í gær og sagði yfir 2.000 störf í norskum iðnaði í hættu.
Ræddi blaðið við Jens Stoltenberg, fjármálaráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra, sem kvaðst hafa þungar áhyggjur af væntanlegum verndartollum ESB. „[Stáliðnaðurinn] er Noregi mikilvægur. Hér eru norskir vinnustaðir undir, norsk fyrirtæki og norsk verðmætasköpun.“
Sagði Stoltenberg norsku stjórnina hafa legið yfir málinu síðan heyrumkunnugt varð að ESB hygðist leggja verndartollana á. „Við erum þeirrar skoðunar að EES-samningurinn eigi að tryggja okkur jafnan aðgang að innri markaðinum. Þá túlkun okkar, hvort tveggja pólitíska og lagalega, höfum við lagt til grundvallar á öllum sviðum gagnvart ESB um langt árabil,“ sagði fjármálaráðherrann norski við VG í gær.
Þá ræddi norska ríkisútvarpið NRK við Espen Barth Eide utanríkisráðherra sem kvað það algjörlega skýrt að norsk stjórnvöld sættu sig ekki við að landið sætti verndartollum á járnblendi. „Sérstaklega mikilvægt er að ekki verði settir kvótar eða þak á útflutning þessara vara frá Noregi til Evrópusambandslandanna. Norsk framleiðsla styður líka við atvinnustöður og verðmætasköpun í Evrópusambandslöndum. Hvort tveggja við og ESB-löndin njótum góðs af,“ sagði Eide við NRK.
„Við höfum ekki fengið upplýsingar um þetta frá stjórnvöldum, sem kemur nokkuð á óvart þar sem við funduðum jú með ráðherra í vikunni í utanríkismálanefnd og höfum nú gjarnan fengið minnisblöð af þessu tagi þannig að það er dálítið skrýtið að lesa um mál af þessari stærðargráðu í norskum fjölmiðlum.“
Þetta sagði Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is í gærkvöldi um fyrirhugaða verndartolla Evrópusambandsins.
Kvaðst hún velta því fyrir sér hvort íslenskir ráðamenn væru of uppteknir í skoðunarferðum og myndatökum með erlendum stjórnmálamönnum til að gæta hagsmuna síns eigin lands.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
