Trúnaðarupplýsingum um tollamál komið til skila

Dagbjört segir minnisblaðið ítarlegt trúnaðargagn.
Dagbjört segir minnisblaðið ítarlegt trúnaðargagn. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Karítas/Eyþór

Nefndarmönnum utanríkismálanefndar hefur borist minnisblað með trúnaðarupplýsingum er varða fyrirhugaða tollasetningu Evrópusambandsins gagnvart ríkjum innan EES á járnblendi, þar á meðal kísilmálm frá Íslandi og Noregi.

Þetta staðfestir Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður utanríkismálanefndar, í samtali við mbl.is. Hún segir minnisblaðið langt og ítarlegt, en að hún geti ekki tjáð sig um efnistök þess þar sem það sé trúnaðargagn.

„Við ræddum málið á fundi á mánudegi, en þar sem óskað hafði verið eftir því af hálfu stjórnarandstöðunnar að enginn trúnaður yrði á fundinum var utanríkisráðherra ekki mögulegt að fara nánar út í málið. Við fengum að vita að þetta væri til umræðu, en það var ekki hægt að greina nefndinni frá því að þessi formlegu skilaboð um þennan varning hefðu borist.“

Þingmönnum ber ekki saman um það hvað hafi nákvæmlega verið rætt á fundinum umdeilda er fram fór á mánudag fyrir viku síðan, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra kom þá fyrir nefndina.

Hafa Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er sat fundinn í fjarveru Diljár Mistar Einarsdóttur, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, ásamt öðrum nefndarmönnum utanríkismálanefndar staðfest að á fundinum hafi ekki verið fjallað um málið sérstaklega. Þó hefði þeir talið fulla ástæðu til að gera viðstöddum skýrar grein fyrir því að vendingar hefðu orðið í þessum málum.

Minnisblaðið eflaust getað borist fyrr

Aðspurð um það hvort minnisblað með atriðum málsins hefði getað borist nefndarmönnum utanríkisnefndar fyrr þar sem norskir fjölmiðlar hefðu byrjað að fjalla um málið þegar á föstudag og trúnaður þá ekki lengur til staðar segist hún ekki geta fullyrt það. 

„Eflaust hefði það mögulega verið hægt, en ég get ekki svarað fyrir það hvaða upplýsingar eru að berast kollegum mínum í norsku utanríkismálanefndinni um hásumar.“

Mögulega hefðu upplýsingar borist fyrr ef málið hefði átt sér stað í febrúar eða mars, en stjórnsýsla á Íslandi sé lítil og fáir að vinna í kringum sumartímann. Hún vilji þó ekki gera lítið úr alvarleika málsins, sem sé mikill.

„Það er alls ekki neinn að afsaka sig, en ég er að ímynda mér það hvernig tímalínan á Íslandi er ólík þeirri sem var í Noregi.“

Fullt tilefni til sérstakrar umfjöllunar

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins sem sömuleiðis situr í utanríkismálanefnd, að sér þætti undarlegt að slíkt minnisblað hefði ekki borist fyrr.

„Það hefði verið fullt tilefni til að fjalla sérstaklega um þetta mál í einhverju minnisblaði, sem hefur ekki verið skortur á frá utanríkisráðuneytinu,“ segir hann.

Ekki hafi verið minnst á efnið í minnisblaði sem sent var fyrir fundinn þrátt fyrir að fjölmörg önnur atriði hefðu verið þar til umfjöllunar.

Sömu upplýsingar samtímis

Þorgerður staðfesti í samtali sínu við Morgunblaðið í gær að sömu upplýsingar hefðu borist utanríkisráðherrum Íslands og Noregs samtímis og að hún hafi átt í nánum samskiptum við Espen Bart Eide, utanríkisráðherra Noregs.

Ekki liggur fyrir hvenær nákvæmlega upplýsingarnar bárust, en norski fjölmiðillinn VG birti viðtal við Jens Stoltenberg, efnahagsráðherra Noregs, um málið á föstudag.

„Við Espen höfum unnið þetta mjög þétt saman og upplýsingarnar farið út á sama tíma,“ sagði hún.

Þó hafa norskir ráðamenn tjáð sig heldur opinberlegar um málið en íslenskir, og mörgum nefndarmönnum utanríkismálanefndar brá í brún þegar þeir sáu fyrst fjallað um umfang málsins í norskum fjölmiðlum.

Mikilvægt að allir séu samstíga

Dagbjört segir að í vetur hafi áhöld verið um það hvar nákvæmlega trúnaði sleppi í minnisblöðum, en mikilvægt sé að allir sem að málinu komi viti um hvað það snúist. 

„Það er mjög mikilvægt, sérstaklega í málaflokki sem þessum, að við séum öll samstíga og að það sé skýrt hvenær von er á yfirlýsingu frá ráðherra um eitthvað tiltekið efni svo við getum rætt um það með opinskárri hætti,“ segir hún og bætir því við að utanríkisráðherra hafi verið virkilega viljug til þess að gera gangskör í málinu.

„Ég sé ekki fram á annað en að það verði ábót í þessu þegar á líður, en það er mikilvægt að undirstrika það að við stjórnum ekki alltaf trúnaðinum – hann stjórnast líka af okkar samstarfsaðilum, hvort sem það er ESB, Norðurlöndin eða Nató.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka