Hvaða áhrif mögulegar aðgerðir Evrópusambandsins munu hafa á rekstur Elkem á Grundartanga er nokkuð sem Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi, vill ekki tjá sig um að svo stöddu.
Hún segir að koma þurfi í ljós hvernig spilin munu leggjast áður en hægt sé að tjá sig um það með ábyrgum hætti.
„Á milli 40 og 60% af okkar útflutningi fara til Evrópu, en að ræða möguleg áhrif aðgerða Evrópusambandsins væri ábyrgðarlaust á þessu stigi,“ segir hún og nefnir að líklega muni málin skýrast að þessari viku lokinni. Það sem eftir stendur er flutt út til Bandaríkjanna og Asíu, aðallega Japan.
„Það er afleit staða fyrir okkur sem höfum verið að hlíta öllum lögum og reglum í Evrópusambandinu, en vera síðan ekki aðili að innri markaðnum. Það er jafna sem gengur ekki upp til langs tíma,“ segir Álfheiður og bendir á að með breyttu pólitísku landslagi í heimsmálum megi búast við því að sjá meira af verndartollum í einhverju formi.
Hún segir að síðast þegar settir voru verndartollar á ál og stál, þá hafi Ísland notið undanþágu, ásamt hinum EES-ríkjunum.
Verði hugmyndir Evrópusambandsins að veruleika mun verða sett tiltekið lágmarksverð á innflutning á kísiljárni, en fari verðið undir lágmarksverðið, þurfi seljandi að greiða mismuninn í toll. Spurð um hver mögulegur tollur á Elkem yrði ef til þessa kemur, var Álfheiður ekki tilbúin til að tjá sig um það að sinni.
„Við leggjum traust okkar á þá vinnu sem nú er unnin í utanríkisráðuneytinu og það samtal sem er í gangi innan Evrópusambandsins um þessi mál og vonum að spilin leggist sem hagfelldast fyrir okkur. Svo munum við bregðast við þegar við vitum hver staðan verður,“ segir Álfheiður. Þar geti brugðið til beggja vona, en hún segist þó vera bjartsýn að eðlisfari.
„Það skiptir óskaplega miklu máli að íslensk fyrirtæki séu aðilar að innri markaði Evrópu, á meðan við hlítum öllum lögum og reglum. Það gengur ekki upp að við séum í von og óvon yfir því sem mun gerast,“ segir hún.
Kári Marís Guðmundsson, forstjóri PCC BakkaSilicon á Húsavík, segir að verði af áformum Evrópusambandsins muni það ekki auka líkurnar á opnun PCC Bakka á Húsavík, en fyrirtækið stöðvaði framleiðslu nýverið.
Hann segir að áform ESB lúti að kísiljárni og kísilmangani, en ekki að kísil eins og framleiddur hefur verið hjá PCC. Framleiðslukostnaður á kísiljárni sé um 20- 30% lægri en á kísil.
Hann segir merkilegt að verð á kísil sé nú lægra en það lágmarksverð sem ætlunin sé að verði í Evrópusambandinu, gangi áform ESB eftir. Hann segir engan í þessum geira vera ánægðan með þau og telur að þótt lágmarksverð verði sett, muni það ekki koma í veg fyrir innflutning kísiljárns frá Asíu. Tilraunin verði í raun misheppnuð.
Í ályktun bæjarráðs Akraness sem birt var í gær segir m.a. að áform ESB séu algjörlega óskiljanleg og í engu samhengi við stefnu sambandsins um að gæta að viðkvæmum aðfangakeðjum fyrir mikilvæg aðföng til iðnaðarframleiðslu. Krefst bæjarráð þess að ríkisstjórnin mótmæli nú þegar harðlega slíku broti á EES-samningnum. Ljóst sé að atvinnu og afkomu hundraða einstaklinga sé ógnað með beinum hætti.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
