Ísland verði ekki kúgað inn í ESB

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eyþór

„Það virðist bara blasa við að ef ekki hefði verið fyrir öflugan fréttaflutning Norðmanna og vökul augu stjórnarandstöðunnar þá hefðu þessir tollar bara lagst á án vitundar íslensku þjóðarinnar,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, um fyrirhugaða tollasetningu Evrópusambandsins (ESB) gagnvart EFTA-ríkjunum, er snýr að kísilmálmum og járnblendi.

Ljóst er að mögulegir tollar ESB munu hafa áhrif á rekstur járnblendisverksmiðjunnar á Grundartanga.

Í samtali við mbl.is segir Guðrún það kristaltært að ríkisstjórnin vilji í Evrópusambandið eins hratt og mögulegt er með öllum tiltækum ráðum.

Hins vegar hljóti hagsmunir Íslands að vera settir í forgang í öllum málum er varða sjálfstæði og velferð landsins, burtséð frá hvaða afstöðu fólk hefur til Evrópusambandsaðildar.

„Ég lít á þetta tollamál sem algjört andvaraleysi gagnvart íslenskum hagsmunum og ef þetta andvaraleysi er afleiðing af umsóknarferli ríkisstjórnarinnar inn í ESB til að sýna einhvern veginn fram á að hagsmunum okkar sé betur borgið þar, þá vil ég bara segja skýrt að íslenska þjóðin verður aldrei kúguð inn í ESB.“

„Hagsmunagæsla fer ekki í sumarfrí“

Þá segir Guðrún það grafalvarlegt að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sé ekki búin að tjá sig um málið þar sem þjóðarhagsmunir séu í húfi og mikilvægt að forsætisráðherrann sýni forystu.

Aðstoðarmaður Kristrúnar tjáði blaðamönnum mbl.is í gær að búast mætti við svörum frá forsætisráðherranum um eða eftir næstu helgi og segir Guðrún það óásættanlegt þegar miklir hagsmunir séu undir í íslensku atvinnulífi.

„Við verðum að geta treyst því að æðstu stjórnvöld Íslands séu að verja hagsmuni okkar. Hagsmunagæsla fer ekki í sumarfrí.“

Eiga ekki að frétta af málinu í norskum fjölmiðlum

Jafnframt furðar formaðurinn sig á að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hafi hvorki átt samtal um málið við þingið né utanríkismálanefnd.

Minnist hún þess að haldinn hafi verið aukafundur í nefndinni eftir komu Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, hingað til lands og að þar hafi málið ekki verið nefnt, þrátt fyrir að utanríkisráðherra hafi verið meðvituð um tollana. Það hafi því ekki verið fyrr en málið var tekið fyrir í norskum fjölmiðlum að þingmenn urðu meðvitaðir um tollana. Hefur Þorgerður sagt að hún hafi nefnt málið á fundinum, en þingmenn minnihlutans í nefndinni segja það ekki satt.

„Við í stjórnarandstöðunni eigum ekki að frétta af þessu máli í norskum fjölmiðlum.“

Þurfa að tala sama rómi, óháð flokkslínum

Þá minnir Guðrún einnig á að Ísland sé fullgildur aðili að innri markaði Evrópu í gegnum EES-samninginn og með aðgerðunum sé verið að gera grundvallarbreytingu á þeim samningi.

„Einhvern veginn hef ég ákveðnar áhyggjur af því að núverandi stjórnvöld og Evrópusambandið ætli einhvern veginn að beita okkur þvingunum til þess að ganga inn í Evrópusambandið. Og eins og ég sagði áðan: Íslensk þjóð verður ekki kúguð inn í Evrópusambandið með þessum hætti.“

Að lokum segir Guðrún að sjaldan hafi verið jafn mikilvægt að stjórn og stjórnarandstaða sameinist um að verja hagsmuni Íslands.

„Við verðum að tala einum rómi, óháð flokkslínum og við verðum að krefjast þess að íslensk störf og atvinnulíf séu varin af einurð og ábyrgð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert