Óhugnanlegt er hve sannfærandi íslenska er nú notuð í svikapóstum sem óprúttnir aðilar herja að Íslendingum með.
Þetta segir Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku, í samtali við mbl.is.
Í dreifingu er nú svikapóstur þar sem athygli viðtakanda er vakin á því að rafmagnsreikningur sé ógreiddur. Í póstinum er því hótað að rafmagnsþjónusta geti verið rofin, berist greiðsla ekki tafarlaust. Óvíst er hve margir hafa fengið umræddan póst en Lovísa segir að viðskiptavinir Veitna og HS Veitna hafi að minnsta kosti fengið hann.
Lovísa segir ekki ljóst hvort viðskiptavinir fleiri veitufyrirtækja hafi fengið póstinn sendan.
Hún vonast til þess að enginn hafi fallið fyrir svikapóstinum og bendir á að þrátt fyrir að málfarið sé nokkuð gott í honum séu ákveðnir hlutir sem gefi til kynna að um svikapóst sé að ræða.
„Ég veit ekki hvort einhver hafi fallið fyrir þessu en netfangið sem pósturinn er sendur úr er mjög lélegt, það er ekki einu sinni verið að reyna líkja eftir netfangi veitufyrirtækjanna. Maður vonar að fólk sé orðið sjóað í að spotta að þetta séu svikapóstar þrátt fyrir að málfarið hafi að öðru leyti ekki verið svo slæmt,“ segir Lovísa.
Sigrún Inga Ævarsdóttir, samskipta- og markaðsstjóri HS Veitna, segir mikið álag hafa verið á þjónustuveri HS Veitna í dag þar sem áhyggjufullir viðskiptavinir hafa verið að hringja inn og spyrja hvort það standi til að loka á rafmagnið hjá sér.
Hún segir þó að engin tilkynning hafi borist um að viðskiptavinir HS Veitna hafi smellt á hlekkinn í póstinum eða gefið frá sér einhverjar upplýsingar vegna svikapóstsins.
