Silja Bára Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands (HÍ), hefur ekki látið ná í sig þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Morgunblaðsins til að fá viðbrögð hennar við atviki í skólanum sem varð fyrir tæpum tveimur vikum.
Miðvikudaginn 6. ágúst mætti Gil S. Epstein, prófessor við Bar-Ilan-háskólann í Ísrael, í HÍ til að halda fyrirlestur um gervigreind. Hópur mótmælenda kom í veg fyrir að erindið gæti farið fram og var fyrirlesturinn blásinn af eftir 20 mínútur. Ástæðan var sú að prófessorinn starfar við ísraelskan háskóla en Silja hefur ekkert tjáð sig um atvikið.
Kolbeinn H. Stefánsson, dósent í efnahagsfélagsfræði við HÍ, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að það væri áhyggjuefni að Silja hefði ekki enn tjáð sig.
„Mér finnst það áhyggjuefni að rektor Háskóla Íslands hafi ekki lýst einhvers konar vanþóknun á þessu,“ sagði hann og bætti við: „[…] Yfirlýsing frá rektor, um að svona framkoma sé óásættanleg og að það verði tekið á málinu strax hér eftir, [væri] mjög mikilvæg til þess að koma í veg fyrir það að þetta sé eitthvað sem muni gerast aftur.“
Þegar Silja tók við sem rektor í lok júní sagði hún sérstaklega mikilvægt að verja akademískt frelsi.
Ragnar Geir Brynjólfsson:
Fræðileg sniðganga hjálpar engum
Páll Vilhjálmsson:
Rektor á flótta undan menntamorði
