Norsku kafararnir eru búnir að kemba Haukadalsá og innan við eitt prósentustig af þeim löxum sem þeir sáu í ánni eru, að þeir telja, eldislaxar. Þetta er umtalsvert minna hlutfall en í norskum ám en einn kafarinn segir þó að einn eldislax sé einum of mikið.
Øyvind Kanstad Hanssen er einn af köfurunum og hann segir í samtali við mbl.is að Fiskistofan í Noregi miði við það að ef 4% allra laxa í ám séu eldislaxar þá eigi að íhuga að grípa til aðgerða.
Ef 10% af löxum í ánni séu eldislaxar þá sé nauðsynlegt að grípa til aðgerða.
Af þeim 640 löxum sem þeir töldu í Haukadalsá töldu þeir sig hafa séð sex eldislaxa. Þar af veiddu þeir fjóra.
„Þetta nemur um prósentustigi og það er frekar lágt hlutfall í samanburði við flestar norskar ár,“ segir Øyvind.
„Ég myndi segja að niðurstaðan úr Haukadalsá sé jákvæð.“
Hann nefnir að af þessum sex eldislöxum þá báru fjórir einkenni um að hafa sloppið fyrir einhverjum tíma síðan og séu því ekki tengdir neinum nýlegum slysasleppingum.
„Aðeins einn eða tveir af þeim stemma við fiskana sem við höfum séð myndir af í fjölmiðlum síðustu vikur,“ segir hann og útskýrir nánar:
„Fjórir eða fimm fiskar hafa eytt einhverjum tíma í sjónum og að öllum líkindum er ekki hægt að rekja þá til slysasleppinga á síðustu tveimur mánuðum. Þeir hafa varið kannski vetri í sjónum áður en þeir sinntu upp í ánna,“ segir hann.
Spurður hvort eldislax í ám sé vandamál á Íslandi segir hann að það ætti ekki að vera neinn eldislax í ám.
„Það ætti ekki að vera neinn eldislax. Þegar ég ber þetta saman við hvenær Fiskistofa í Noregi grípur til aðgerða, er það aðallega í ám sem eru með hærra hlutfall af eldislaxi en 1%,“ segir hann.
Øyvind segir að í Noregi sé ákveðið viðbragðskerfi sem miðar við mismunandi aðgerðir eftir því hversu mikið hlutfall af eldislaxi er í ám. Þar er miðað við að byrja íhuga aðgerðir ef yfir 4% af laxi í ám er eldislax.