Algjört áhugaleysi, stefnuleysi og sinnuleysi

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs segir stjórnvöld sek um algjört áhugaleysi, …
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs segir stjórnvöld sek um algjört áhugaleysi, stefnuleysi og sinnuleysi. Samsett mynd

Kópavogsbær mun ganga skrefi lengra en honum ber við innleiðingu nýs námsmats stjórnvalda. Bæjarstjórinn segir stjórnvöld hafa gerst sek um algjört áhugaleysi, stefnuleysi og sinnuleysi.

Greint var frá því í morgun að bæjaryfirvöld hygðust innleiða samræmd próf í íslensku og stærðfræði í tíu grunnskólum bæjarins, í öllum bekkjum frá 4. bekk og þar til nemendur útskrifast.

Skólayfirvöld á landsvísu ætla aftur á móti einungis að gera þau skyldubundin fyrir 4., 6. og 9. bekk.

Ekkert heildstætt samræmt mat

Um er að ræða nýjan svokallaðan matsferil á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu (MMS), en honum er ætlað að leysa þau samræmdu könnunarpróf af hólmi sem varpað var fyrir róða fyrir nokkrum árum.

Var innleiðingu hans flýtt síðasta sumar í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins og mbl.is um slæma stöðu grunnskólakerfisins.

Í millitíðinni hefur ekkert heildstætt samræmt mat farið fram á getu íslenskra grunnskólabarna, á sama tíma og hún hefur hríðfallið í alþjóðlegum samanburði þegar horft er til niðurstaða PISA-kannana.

Ásdís segir að verið sé að svara ákalli um skýrari …
Ásdís segir að verið sé að svara ákalli um skýrari innsýn í starf grunnskólanna og árangur þess. mbl.is/Karítas

Hægt að skoða stöðuna og bregðast við

„Þetta er sá matsferill sem MMS hefur verið að þróa og við höfum verið að taka þátt í tilraunaverkefni núna í vetur,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs í samtali við mbl.is.

„Þetta verður skylda í öllum grunnskólum Kópavogs, frá 4. bekk upp í 10. bekk.“

Niðurstöður úr þessum prófum muni nýtast á margvíslegan hátt.

„Við, og ég sem bæjarstjóri, munum geta séð stöðu hvers skóla fyrir sig. Við getum þá brugðist við ef þess þarf,“ segir Ásdís.

„Svo munu kennarar geta áttað sig betur á því hvar nemendur standa, miðað við önnur börn á landsvísu, sem og líka foreldrar sem fá upplýsingar um stöðu sinna barna.“

Svara ákalli um skýrari innsýn

Með þessu sé verið að svara ákalli um skýrari innsýn í starf grunnskólanna og árangur þess.

„Við erum að fara að mæla með samræmdum hætti stöðu barna í námi, er snýr að lesskilningi og stærðfræði eins og sakir standa, en svo munum við auðvitað innleiða frekari stöðupróf eftir því sem þau koma frá MMS.“

Hvað af þessu er að ykkar frumkvæði og hvað af þessu er það sem MMS er að innleiða nú þegar annars staðar?

„Það sem MMS hefur verið að þróa er þessi svokallaði matsferill. Eins og þetta er í frumvarpi stjórnvalda þá er ekki verið að gera ráð fyrir því að þetta verði skylda í öllum skólum, og hvað þá í öllum árgöngum.

En það sem við erum að gera, er í raun að ganga skrefinu lengra. Við ætlum að innleiða þetta frá 4. bekk upp í 10. bekk. Það verður skylda í öllum grunnskólum Kópavogs. Þannig að öll börn, frá 4. bekk og þar til þau útskrifast úr grunnskóla, munu taka þessi stöðu- og framvindupróf.

Við ætlum að nýta þessar niðurstöður til þess að bregðast við og styðja betur við nám barnanna.“

Samræmdu prófin verða haldin í vor í Kópavogi.
Samræmdu prófin verða haldin í vor í Kópavogi. mbl.is/Karítas

Svo sannarlega framfaraskref

Þannig að þið eruð að taka af skarið og segja: Þetta verður skylda og byrjar bara núna í vor.

„Frá og með vori. Og þetta er ákvörðun sem við tökum í víðtæku samráði við skólasamfélagið. Allir eru sammála því að þetta sé svo sannarlega framfaraskref og við ætlum að taka þetta föstum tökum.“

Þetta samráð er það sem ráðist var í síðasta haust, eftir afhjúpandi umfjöllun mbl.is?

„Jú, við fórum bara af stað. Ég heyrði skýrt ákall, frá foreldrum, kennurum og nemendum, eðlilega, um að við myndum mæla með markvissari hætti hvar börnin standa í námi.

Svo kom auðvitað líka fram að námsmatið væri óskýrt og að það þyrfti að skýra það betur.“

Hendur sveitarfélaga bundnar

„Við erum auðvitað í þeirri stöðu að hendur okkar eru bundnar hvað varðar einkunnagjöf, vegna þess að frá árinu 2013 hefur það verið skylda að börn séu metin samkvæmt bókstöfum þegar þau útskrifast úr grunnskóla.

En eins og þú heyrir þá hefur verið ákall þess efnis að skýra betur hvað þessar einkunnir þýða. Hvað þýðir B sem dæmi? Við erum meðal annars að svara þessu ákalli. Það verða veittar umsagnir og við munum styðja betur við börnin, þannig að þau átti sig betur á því hvar þau standa þegar þau fá mat úr sínum verkefnum og prófum.“

Bókstafirnir skapað óvissu

Ef þið mættuð fara í skalann 0-10, er það eitthvað sem þið mynduð velta fyrir ykkur?

„Já, að sjálfsögðu. Ég heyri það, og ég skil vel, að foreldrar skilja ekki alveg þessa bókstafi. Þessir bókstafir eru auðvitað á frekar breiðu bili. Það hefur skapað ákveðna óvissu þannig að við myndum að sjálfsögðu skoða það.

En á endanum er þetta auðvitað stefna stjórnvalda,“ segir Ásdís og heldur áfram:

„Það verður bara að segjast eins og er, að þessi staða sem við blasir í grunnskólakerfinu er að mínu mati að öllu leyti á ábyrgð stjórnvalda. Það hefur í raun ríkt algjört áhugaleysi, stefnuleysi og að mínu mati bara sinnuleysi, gagnvart þessum mikilvæga málaflokki.

Það eru stjórnvöld sem marka stefnuna. Það eru stjórnvöld sem lögum samkvæmt ber að tryggja það að það séu samræmd próf á hverju einasta ári. Og þau hafa ekki verið að uppfylla þessar skyldur. Við erum bara að bregðast við þessari stöðu, svara ákalli skólasamfélagsins og foreldra og reyna að gera betur.

Þannig að mér finnst mikilvægt að hafa í huga að ábyrgðin hvílir hjá stjórnvöldum, en ekki kennurum eða skólastjórnendum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert